Ég hef undanfarna daga ítrekað tekið þátt í skoðanakönnunum um viðbrögð íslenskra heilbrigðisyfirvalda við kórónaveirunni, hvort ég sé ánægður og sáttur. Ég hef svarað játandi og meira að segja hvergi sparað lýsingarorðin og myndi gera enn.
Ég reyni auk þess að fylgja til hins ítrasta ráðleggingum og tilmælum þessara aðila. Ég er með öðrum orðum eins jákvæður í þessum skilningi og verða má. Vona ég innilega að samstarfsvilji og samstaða þjóðarinnar eigi eftir að skila okkur árangri sem fyrst. Ég er einnig þakklátur því fólki sem er að láta gott af sér leiða fyrir okkar hönd.
Ef ég nú væri spurður hvort ég bæri traust til tveggja fyrrverandi alþingismanna sem véfengt hafa aðferðafræði íslenskra stjórnvalda, þeirra Frosta Sigurjónssonar og Ólínu Þorvarðardóttur, þá myndi ég tvímælalaust einnig svara játandi og það meira að segja afdráttarlaust. Samstaða og gagnrýnin hugsun fara nefnilega ágætlega saman, þurfa meira að segja að fara saman. Þöggun kann aldrei góðri lukku að stýra.
Ég hef spurt sjálfan mig hvers vegna opið bréf þingmannanna til heilbrigðisyfirvalda birtist ekki í fjölmiðlum – að tveimur netmiðlum undanskildum, Viljanum og DV, að því er ég best fæ séð, en í öðrum þeirra, DV, með fordæmingu á innihaldinu. Þá hafa birst opinberlega ásakanir í garð þingmannanna tveggja í krafti þess að menn vilji “ábyrga” umræðu og er svo að skilja að þar rúmist engin gagnrýni. Undir það get ég ekki tekið. Fjarri því.
Nú vill svo til að í þingsetu sinni skáru þessir þingmenn sig úr þingmannasveitinni fyrir að vera óhræddir við að fylgja sannfæringu sinni. Það á við um Ólínu Þorvarðardóttur og um Frosta Sigurjónsson hef ég haft þau orð að sennilega sé hann sá þingmaður sem ég hef kynnst á Alþingi sem síst hefur verið háður vanahugsun, óhræddastur allra að spyrja þar sem spurninga var þörf og þá einnig um hið óþægilega; koma síðan með nýstárlegar hugmyndir, alltaf vitibornar og uppbyggilegar. Slíkir eru opnu lýðræðisþjóðfélagi ómissandi.