Frosti og máni í stuði

Það var hressandi að horfa á þá félaga Mána og Frosta í Harmageddon ræða Sjálfstæðisflokkinn við Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í gærkvöld á Stöð 2.

Loks nýttu þáttastjórnendur sitt tækifæri í sjónvarpi til fulls að bjóða geimverum lendingu á móður jörð og það í beinni útsendingu.

Ég skrifa geimverum, því hver kannast ekki við að ráðherra sé kallaður í sjónvarpsviðtal, heima bíður fólkið og bíður þess að spyrlar spyrji brennandi og áleitinna spurninga. Svo þróast það sem átti að verða harður debatt upp í kurteislegt teboð. Retórík og mælskubrögð bera álitaefnin ofurliði, fyrir utan þessa þörf flestra dagskrárgerðarmanna að viðmælendum þeirra líði vel. Áhorfendur sitja þá oft uppi án svara við áleitnum spurningum en þannig var það ekki í gærkvöld.

Eflaust mætti setja fleiri stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokkinn á sama bás og Frosti og Máni gerðu í gærkvöld með gagnrýnum og oft húmorískum spurningum sínum. Einkavinavæðing, klíkuskapur, sérhygli, pilsfaldakapítalismi, sukk með opinbert fé, valdníðsla, allt eru þetta þemu þegar kemur að ráðandi stjórnmálalífi hér á landi, þar vantar mikla auðmýkt. Of sjaldgæft er að helstu gerendur pilsfaldakapítalismans séu með réttu spurningunum og réttu athugasemdunum teknir niður á jörðina. Harmageddon afhelgaði hina heilögu stétt stjórnmálamanna í gær. Ólöfu Nordal, sem þó er sennilega sá stjórnmálamaður sem þjóðin hefur einna mesta trú á, var boðið upp á ókeypis veruleikatékk. Held hún hafi vaknað þótt hún hafi líka pirrast, kannski vaknaði einhver þarna úti líka í hópi áhorfenda.

Allt tal um að pólitíkusar ætli sér að breyta hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum hefur nefnilega reynst harla hlálegt þegar mýmörg, glæný, empirísk dæmi úr hneykslissögu stjórnmálanna eru til vitnis um að ekki fari saman orð og efndir. Að setja valdamesta flokk landsins á stall og tala um mikilvægi þess að breyta flokknum til samræmis við það rof sem mælist meðal þings og er augljóslega Landsfundarbrella. Nema skipt verði um kúrs hið snarasta.

Of sjaldgæft hefur verið að fjölmiðlamenn taki einstök og erfið mál, beri þau upp og setji í samhengi við hugmyndafræði, lærdóm og stefnu eins og stjórnendur Harmageddon gerðu í gær. Þeir fá prik fyrir – en maður spyr sig líka: Hverjar verða afleiðingar þess? Mun Ólöf Nordal segja næst þegar þeir falast eftir viðtali: Nei, þið voruð svo ókurteisir síðast að ég ætla aldrei oftar að tala við ykkur.

Vonandi fellur Ólöf ekki í þann pytt. Ein leiðin til að bæta stjórnmálin og samfélagið er einmitt að fjölmiðlar hafi fullt frelsi til að spyrja allra þeirra spurninga sem þeir telja brýnastar, án þess að þeir þurfi að óttast að það að vinna vinnuna sína hreki ráðandi stéttir frá þeim.

Sama dag og stjórnmálamenn átta sig á mikilvægi aðhalds- og eftirlitshlutverks fjölmiðla og sama dag og pólitískt kjörnir fulltrúar almennings virða það hlutverk, hefur Ísland stigið eitt lítið hænufet til betri tíma.

En um leið verður að gera þá kröfu til almennings að hann styðji sjálfstæða blaðamennsku. Halli sér ekki bara að hundfúlum stjórnmálamönnum, hópsparkandi í pung Fjórða valdsins, gælandi við bitlinga og verðlaun síðar, verðlaun fyrir að taka afstöðu gegn almannahagsmunum!

Í góðu samfélagi starfa nefnilega bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn alla daga ársins að almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum og það ræddu Frosti og Máni af festu í gærkvöld á sama tíma og þeir grófu upp þau ummæli Ólafar Nordal frá ÍNN að Rannsóknarskýrsla Alþingis, lykill Íslands að lærdómi og sátt, væri að „þvælast fyrir sjálfstæðismönnum“.

Hér er Harmageddon þáttur gærkvöldsins.