Frosti Logason, fjölmiðlamaður, gengst við þeim ásökunum sem fyrrverandi kærasta hans bar upp í viðtali við Stundina í dag.
Hann greinir frá málinu á Facebook-síðu sinni.
Fyrrverandi kærasta Frosta, Edda Pétursdóttir, tjáði sig í viðtali við Stundina í dag um samband þeirra og sagðist hún hafa óttast hann í tæpan áratug.
Frosti var ekki nafngreindur í viðtalinu en hann hefur stigið fram sjálfur og segist iðrast.
„Samband okkar var ekki heilbrigt og framkoma okkar við hvort annað langt í frá til fyrirmyndar. Ég var á vondum stað á þessum tíma. Ég tók sambandsslit okkar mjög nærri mér og í kjölfar þeirra kom hryllilegt tímabil þar sem ég var haldinn þráhyggju og sagði og gerði hluti sem ég sé mikið eftir,“ segir Frosti meðal annars í færslu sinni.
Hann segist hafa leitað sér hjálpar fagaðila vegna málsins.
„Ég hef því ekki gert mér grein fyrir nákvæmlega hvað ég hafði sagt og skrifað á þessu tímabili fyrr en ég sá viðtalið við hana í morgun.
Ég veit að ekkert getur bætt fyrir hegðun mína, það minnsta sem ég get gert er að gangast við því sem ég gerði og biðjast innilega afsökunar,“ segir Frosti að lokum.