Frönsk matargerð þarf ekki að vera flókin

Að kunna að máta matinn í maga er list sem allir ættu að kunna, það lærði Ingibjörg Ásta þegar hún bjó í Frakklandi. Ingibjörg Ásta Pétursdóttir áhugamanneskja um mat, ein af frumkvöðlunum bak við Hótel Flatey á Breiðafirði og matarbókarútgefandi hefur alla tíð haft áhuga á mat og menningu. Hún hefur tileinkað sér matargerð þeirra landa sem hún hefur dvalið í, einkum í héraðinu Provence í Frakklandi og í Marokkó. Sjöfn Þórðar heimsækir Ingibjörgu Ástu á hennar fallega heimili við Vesturgötuna í eldhúsið hennar þar sem Ingibjörg Ásta töfrar fram ekta franska sælkerarétti á franska vísu eins og hún lærði að gera þá í Frakklandi.

Að vinna við mat, elda og halda stórar og smáar veislur er það skemmtilegasta sem Ingibjörg Ásta gerir. „Það hefur verið svo frábært að vinna við það sem er líka áhugamál gegnum árin. Ég hef verið lukkunnar pamfíll,“segir Ingibjörg Ásta. En á sínum tíma, um kringum 1980 þegar hún kom heim aftur eftir rúmlega tólf ára dvöl erlendis stofnaði hún Café Mensu við Lækjargötu sem hún síðar breytti í veisluþjónustuna Mensu. Það var síðan árið 2006 sem hún og maðurinn hennar Þorsteinn Bergsson ásamt öðru fólki komu Hótel Flatey á laggirnir og þar blómstraði Ingibjörg Ásta í eldhúsinu. „Það var svo gaman og mikið að gera í eldhúsinu út í Flatey. Hráefnið ferskt og nýtt úr Breiðafirðinum og við vorum til dæmis alltaf með bláskel úr Breiðafirðinum á boðstólnum.“

M&H Ingibjörg Ásta 1.jpeg

Ómótstæðilega girnileg bláskelin úr Breiðafirði að hætti Ingibjargar Ástu.

Ingibjörg Ásta gaf út matreiðslubókina Mensu árið 2016 þar sem öllum hennar uppáhalds uppskriftum er uppljóstrað, og kryddaðar með sögu hennar sjálfrar, frá Frakklandi , Marokkó, frá tímum Mensu og úr eldhúsinu á Hótel Flatey þar sem matarástríðan og sköpunin blómstraði. Ingibjörg Ásta eldar fyrir Sjöfn upp úr bókinni tvo franska rétti í þættinum og fer vítt og breytt yfir sviðið í matarmenningunni sem hún hefur upplifað og notið.

M&H Ingibjörg ásta 3.jpeg

Missið ekki af áhugaverðri heimsókn Sjafnar í eldhúsið til Ingibjargar Ástu á Vesturgötunni í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.