Fréttin í fréttinni

Stundum fer fréttin í fréttinni framhjá fólki þegar aðalfréttin er merkileg. Þannig er um fréttina af könnun MMR um ánægju með störf forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar. Nærri 70 prósent aðspurðra lýsa ánægju með störf hans og afar fáir, rétt rúm 6%, óánægju. Væntanlega kinka flestir kolli, svona í takt við þessar niðurstöður, þær endurspegla jú afstöðu almennings. Flestir geta svarað þessu sama fyrir sinn hatt, enda Guðni verið afar traustvekjandi í fyrstu vikum sínum í embætti, virðist vera kominn vel áleiðis í að setja ný viðmið um fas og hegðun. Ekki aðeins í embætti forsetans, heldur fyrir fólk almennt. Það er eðlilegt að við högum okkur vel, notum almenna skynsemi og tökum upphlaupum með jafnaðargeði. Og höfum engu að síður prinsipp að fylgja. Þannig er fordæmi forsetans.

Engu er svo líkara en forsætisráðherrann sjálfur hafi tekið Guðna sér til fyrirmyndar þegar hann slær á æsingsupphlaup flokksfélaga sinna eftir klaufaskap Arnars Páls fréttamanns og brosir bara í kampinn að sannra höfðingja hætti. Stærri í sinni en svo að velta um koll við svona smágusur!

En hvað er þá fréttin í fréttinni? Í frétt Kjarnans af könnuninni er botninn sleginn í með þessari setningu: \"47,7 pró­sent kjós­enda Fram­sókn­ar­flokks­ins segj­ast hins vegar ánægð með störf for­set­ans, og 50,3 pró­sent kjós­enda Sjálf­stæð­is­flokks­ins.\"

Þessi fyrrum stórveldi íslenskra stjórnmála, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, fá það semsagt framan í sig að vægi þeirra er svo lítið, að um 50% stuðningsmanna þeirra hafa varla áhrif á heildarniðurstöðu könnunarinnar. Einhvern tíma hefði 50% stuðningur sjálfstæðismanna dregið heildarniðurstöðurnar hraustlega niður, en nú eru svo fáir að baki þessum 50% að afstaða þeirra hefur lítil áhrif. Kjósendur sýna æ fleiri merki þess að þeir hafa snúið baki við gömlum sérhagsmunagæsluflokkunum. Þetta er reiðarslag fyrir forkólfa sérhagsmunanna sem nú eru eiginlega bara á flæðiskeri staddir.