Að bera saman epli og appelsínur. Þetta er stundum sagt um það þegar menn bera saman ósambærilega hluti. Stundum er svoleiðis samanburður settur fram til að halla réttu máli, stundum vegna misskilnings, jafnvel fákunnáttu.
Þetta kom í hugann þegar Fréttastofa RÚV kokgleypti agnið hjá „sérfræðingum“ sem höfðu mætt í Silfrið til að ræða eitthvað sem þeir kölluðu skýrslu og átti víst að sýna að ávöxtun lífeyrissjóða landsmanna væri eitthvað mismunandi eftir sjóðum. Verst var að dæmin sem Þeir tóku máli sínu til stuðnings eru algjörlega ótæk í þeim tilgangi. Þar var ekki aðeins verið að bera sama epli og appelsínur, heldur mætti frekar líkja því við að bera saman epli og sveskju, svo fráleit voru þau dæmi.
Í frásögn Fréttastofunnar af þessum samanburði segir svo: „Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, sem heyrir nú undir Arion banka, skilaði 5,8 prósenta ávöxtun að meðaltali á umræddu tímabili en Lífeyrissjóðurinn Lífsverk var með neikvæða ávöxtun upp á 0,1 prósent.“
Hér er annars vegar tekið dæmi af óvirkum lífeyrissjóði sem tekur ekki lengur við iðgjöldum og er í vörslu banka, hins vegar af lífeyrissjóði sem hefur gengið í gegn um margvíslegar hremmingar á því tímabili sem um ræðir, enda verið mikið ósætti um rekstur og stjórnun hans og óstöðugleiki einkennt starfsemina, sérstaklega eftir að tekið var upp á því að misfámennir félagsfundir kysu stjórn sjóðsins.
Báðir þessir sjóðir teljast til hinna minni lífeyrissjóða og geta varla talist vera dæmigerðir, hvorugur getur reyndar talist vera gott dæmi um rekstur eða ávöxtun sjóðanna
. Skýrsluhöfundurinn titlar sig verkfræðing. Ætli það sé kennt í verkfæðinni að setja fram ósambærilegar upplýsingar og draga af þeim víðtækar ályktanir? Og hann setur fram kröfur um gagnsæi og upplýsingagjöf. Allar eru þessar upplýsingar nú þegar fyrirliggjandi. Lífeyrissjóðirnir, þ.e. þeir sem eru virkir og taka við iðgjöldum, reka vefi sem innihalda aðgengilegar upplýsingar um ávöxtun langt aftur í tímann ásamt fleiri mikilvægum upplýsingum. Fjármálaeftirlitið birti reglulega upplýsingar um rekstur allra sjóðanna. Þetta vita fréttamennirnir auðvitað ekki og halda að skýrslan sú arna hafi verið að segja frá einhverju nýju!
rtá