Fréttastofa eða skipulagt einelti?

Svo brá við seint í gær að Ríkisútvarpið sendi frá sér afsökunarbeiðni vegna mistaka sem orðið hafi við vinnslu fréttar sem birt var á fimmtudaginn í síðustu viku, fyrir átta dögum. Degi fyrr birti Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri RÚV, hins vegar aðsenda grein á Vísi þar sem hann þvertók fyrir að mistök hefðu verið gerð við vinnslu umræddrar fréttar. Óhætt er að segja að fréttastjórinn hafi sett sig á háan hest í þeirri grein. Ekki hefur komið fram hvað breyttist á þessum sólarhring.

Nú er það svo að öllum getur orðið á. Líka fjölmiðlum og fjölmiðlafólki. Mistök geta verið stór eða lítil, alvarleg eða smávægileg. Þegar upp er staðið eru það kannski ekki mistökin sjálf sem allt snýst um (þó fer það eftir eðli þeirra) heldur það hvernig brugðist er við mistökunum.

Lítum aðeins á það hvað misfórst við vinnslu fréttar RÚV um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur. Fyrsta atriðið er að „fréttin“ var byggð á einhliða málflutningi manneskju úti í bæ. Án þess að hafa fyrir því að sannreyna hvort fullyrðingar á borð við þær að ráðherra hefði, sem ung kona fyrir næstum 40 árum, sofið hjá 15 ára unglingi var því slengt fram sem staðreynd væri. Þetta hefur verið hrakið.

Þá var því haldið fram að Ásthildur Lóa hefði verið leiðbeinandi rekkjunautarins. Það var rangt.

Strax þarna hefði vandaður fjölmiðill staldrað við og spurt sig grundvallarspurningarinnar: Er þetta frétt? Er það frétt að tvær sjálfráða manneskjur stundi kynmök af fúsum og frjálsum vilja? Kemur einhverjum það við hverjir sváfu hjá hverjum fyrir 40 árum?

Vandaður fjölmiðill hefði ekki verið í vandræðum með að svara þessum spurningum.

Ekki verður betur séð en að fréttamanninum sem vann fréttina hafi verið fullljóst að þarna var hún ekki með frétt í höndunum heldur rætið slúður. Fréttamaðurinn fór yfir mörg strik við vinnslu þessarar „fréttar“. Virðist henni m.a. hafa verið það algerlega ljóst að alls ekki var um lögbrot að ræða vegna þess að í fréttinni er sérstaklega tekið fram að samkvæmt þeim lögum sem gilda í dag hefði hátterni ráðherrans fyrir tæpum 40 árum verið ólögmætt.

Þetta er reyndar rangt hjá fréttamanninum. Samkvæmt lögum er einungis refsivert að stunda kynlíf með manneskju sem er undir 15 ára aldri. Það er því ljóst að ekki stendur steinn yfir steini í fréttaflutningi RÚV af þessu máli. Afsökunarbeiðnin, sem tekur aðeins til lítils hluta rangfærslna í fréttinni, er því aumkunarverð í meira lagi.

Margir hafa haft áhyggjur af því að eftir því sem ritstýrðum fjölmiðlum fækkar og stjórnlausir samfélagsmiðlar verða öflugri aukist hættan á því að falsfréttir og slúður verði ráðandi í umræðunni. Af fréttaflutningi RÚV í þessu máli og fleirum er ljóst að ekki þarf að beina sjónum sínum að samfélagsmiðlum til að hnjóta um fals og slúður í búningi frétta.

Við þetta bætist að óljóst er eftir hvaða leiðum RÚV barst þessi slefburður. Staðfest hefur verið að heimildarmaður RÚV var í sambandi við þingmann Sjálfstæðisflokksins og því virðast töluverðar líkur á því að RÚV hafi látið nota sig í pólitískum hráskinnaleik. Hafi svo verið getur miðillinn engum öðrum kennt um en sjálfum sér og axarsköftum fréttamanns og fréttastjóra.

Undirritaður starfaði á fréttastofu Ríkissjónvarpsins fyrir nokkrum áratugum, þegar Bogi Ágústsson var fréttastjóri. Vinnubrögð af því tagi sem RÚV viðhafði við vinnslu þessarar „fréttar“ hefðu aldrei verið liðin undir hans stjórn.

Fjölmiðill getur illa starfað ríki ekki traust í hans garð. RÚV hefur grafið mjög alvarlega undan því trausti sem ríkt hefur til miðilsins. Fréttin um Ástu Lóu er langt í frá eina dæmið um vafasaman fréttaflutning á liðnum árum. Það er bara næst okkur í tíma. Maður fær það á tilfinninguna að þegar kemur að stjórnun fréttastofu RÚV þessi misserin skorti mjög á yfirvegun og réttsýni. Starfrækir RÚV fréttastofu eða er þetta skipulagt einelti á kostnað okkar sem skikkuð erum til að greiða marga milljarða á hverju ári til RÚV?

– Ólafur Arnarson