Björn valur: pólitískt líf undir

Pólitísk framtíð Björns Vals Gíslasonar er gervöll undir í kosningu um varaformannsembætti VG á landsfundi um helgina. Þetta segir Björn Valur sjálfur í samtali við Hringbraut. Hann hefur gegnt varaformannsstöðunni síðustu ár og mun sækjast áfram eftir varaformannembætti flokksins. Komið er fram mótframboð gegn Birni Val og virðist pólitískur keppinautur hans innan flokksins njóta töluverðs stuðnings. 74 flokksmenn hafa birt nöfn sín opinberlega á lista við þar sem þeir styðja  ungan mann frá Þorlákshöfn til varaformannembættis, Daníel Arnarsson.

Taka 2 í rimmu um varaformanninn

Ný stjórn verður kosin á landsfundi VG á Selfossi um helgina. Daníel Haukur Arnar bauð sig fram til varaformanns fyrir tveimur árum en tapaði þá fyrir Birni Val. Daníel er 25 ára, hann er frá Þorlákshöfn og hann er starfsmaður flokksins.

Nokkuð er liðið síðan Björn Valur upplýsti opinberlega að hann myndi áfram sækjast eftir varaformannsembætti VG.  Tveir fyrrverandi  framkvæmdastjórar flokksins eru meðal þeirra sem styðja Daníel og taka með því opinbera afstöðu gegn framboði Björns Vals.  Nefna má á listanum Sóleyju Tómasdóttur, oddvita VG í Reykjavík sem styður Daníel og Sóleyju Björk Stefánsdóttur oddvita VG í bæjarstjórn á Akureyri. Björn Valur er Norðlendingur og var þingmaður NA-kjördæmis. Hann reyndi síðast fyrir sér í Reykjavík en náði ekki kosningu.

Fordæmalaust mál

Í samtali við Hringbraut segir Björn Valur Gíslason að hann muni ekki bregðast sérstaklega við stuðningi við því að Daníel verði næsti varaformaður VG. Hann hyggist taka slaginn. „Þetta er aftur á móti mjög óvanalegt fyrir okkur í VG, ég man ekki til að svona listar hafi verið lagðir fram áður þegar gengið er til kosninga hjá okkur,“ segir Björn Valur.

Hann segist telja sig hafa fullt erindi til að gegna áfram varaformennskunni. Hann hafi verið áberandi talsmaður flokksins á ýmsum vígstöðvum og skrifi pólitíska pistla á eigin vefsíðu sem oft séu víðlesnir. Þá vilji hann vekja athygli á að hann og formaður VG, Katrín Jakobsdóttir, skili nú ársreikningum í rekstri flokksins á núlli, eigur hafi verið seldar og skuldir greiddar.

Björn Valur var formaður fjárlaganefndar í Vinstri stjórninni og hefur oft lýst því erfiða ástandi sem skapaðist í að bjarga efnahags Íslands eftir hrun. Hann féll út af þingi síðast en hefur komið inn sem varaþingmaður. Lítur Björn Valur nú þannig á málin að ef hann nái ekki kosningu til varaformanns muni hann ekki bjóða sig oftar fram til þingmennsku?

 „Póliísk framtíð mín ræðst af kosningu um varaformannsembættið, það eru meiri líkur en minni á að ég hætti í þessum geira ef ég fær ekki kosningu. Ég lagði mikið á mig í stjórnmáalstarfinu eftir hrun og ef ég fæ ekki þennan stuðning áfram í framvarðarsveit VG sem ég tel mig þurfa að fá frá flokknum þá eru meiri líkur en minni á að komið sé að skilum í mínum ferli. Þetta er engin hótun, svona er lífið bara.“

Landsfundur VG hefst á morgun og verður ný stjórn kjörin á laugardag. Katrín Jakobsdóttir mun áfram leiða flokkinn og fá til þess „rússneska kosningu“ eins og einn Vg-liðaði orðaði það í samtali við Hringbraut.

 

(Fréttaskýring: Björn Þorláksson)