Franskur fréttamaður: súrrealískt ísland

 

Í síðustu viku þegar allt var á hvolfi og maður þeyttist sem blaða- og fréttamaður milli Austurvallar, Alþingis og Bessastaða (með ugg í brjósti vegna þess að landið virtist stjórnlaust) kynntist ég nokkrum erlendum kollegum.

Þar á meðal var franskur fréttamaður. Eftir að hann hafði fjallað um nokkrar einstæðar uppákomur í íslensku stjórnmálalífi áttum við tveir stutt tal saman, skammt frá stiganum fræga í þinghúsinu sem \"Stigamannastjórnin\" hefur verið kennd við - svo vitnað sé til gárunga.

Franski fréttamaðurinn sagði:

\"Ég hef áttað mig á einu. Þegar franskir stjórnmálamenn skapa sér peningaskandal þar sem opinbert fé er undir, trúnaður og traust, veit maður nánast 100% hvað gerist næst. Það eru til rótgrónar eftirlitsstofnanir, samstarfsmenn, ýmis apparöt sem grípa inn í þannig að fólk axli strax ábyrgð, yfirleitt dugar vafi til að einhver stígi til hliðar. En nú eftir örfáa daga á þessu landi hefur mér orðið eitt ljóst sem varðar stjórnmál; Þótt pólitíkusar skíti upp á bak (frjálsleg þýðing) er ekki nokkur leið að ráða í hverjar afleiðingar verða af uppákomum sem í kringum okkur þætti algjör \"dílbreiker\". Það hlýtur að vera mjög súrrealískt að vera fjölmiðlamaður á Íslandi. Nei, fyrirgefðu, leyfðu mér að umorða þetta, það hlýtur að vera súrrealískt að vera almenningur á Íslandi!\"

Netop! Svo vitnað sé til speki danskra andrésblaða til forna.

Það er kannski þess vegna sem við erum orðin svo firrt íslensku samfélagi eins og því hefur verið stjórnað af hálfu pólitíkusa og ráðandi viðskiptamanna. Eitthvað annað gerist í kjölfar hneykslismála en við búumst við, eitthvað gerist sem veldur fullkomnu samningsrofi milli almennings og ráðamanna. Oft með því að það gerist ekki neitt! Maður áætlar út frá ábyrgð valdafólks og eigin siðferðiskennd að skandall muni leiða til afsagnar, að varnarkerfi samfélagsins hraði því verki að minnka skaðann, grípi til skjótvirkra leiða til að koma aftur á trausti. Um það snýst heila stóra málið.

En ekki hér. Ekki hér.

Við erum ekki að tala um hópframhjáhald nokkurra ráðherra ríkisstjórnarinnar, við erum að tala um trúnaðarbrest sem varðar stefnu, umboð, opinbert fé, almannasjóði. Grægði er matskennt hugtak, við erum að tala um miklu áþreifanlegri hluti. Við erum að tala um fyrrverandi forsætisráðherra sem skeit upp á bak og hefur siglt undir fölsku flaggi allan sinn feril. Óð samt eftir afhjúpunina um allar koppagrundir í síðustu viku, reynandi að bjarga pólitísku lífi sínu, baðst aldrei afsökunar, sá enga sök í eigin máli nema að hafa ekki staðið sig betur í viðtalinu sem felldi hann. Kennir samt Rúv um ófarir sínar! Og enn sitja tveir ráðherrar í ríkisstjórninni tengdir aflandsfélögum.

Það þurfti 22.000 öskrandi Íslendinga til að bylta Sigmundi Davíð. Svo vitnað sé til franska fréttamannsins er fremur óheppilegt og jafnvel súrrealískt að enginn viti hvað gerist næst. Ein ástæða þeirrar stöðu er e.t.v. sú að einu gildir hvort íslenskur almenningur hefur komið sér sér upp sameiginlegri samvisku, sameiginlegu siðviti eða ekki. Þeir sem stjórna fara eigi að síður sínu fram, burtséð frá viðhorfum almennings.

Það ætti að vera einfalt að sjá að rjúfa verður þing sem fyrst og blása til kosninga til að skapa nýtt trúnaðarumboð milli þings og þjóðar.

En það er erfitt að vera Íslendingur á Íslandi.

Og verður það áfram þangað til samviska og hagsmunir almennings fá nýtt og aukið vægi á kostnað valdhroka ráðandi stéttar.

Þá verður gott að vera Íslendingur á Íslandi.

Björn Þorláksson