Heiðraði verkalýður og öll alþýða!
Við ávörpum ykkur á baráttudegi verkalýðsins, á fögrum vordegi þegar hin kúguðu líta upp úr stritinu og leyfa sér að horfa fram á betri tíð. Fyrsti maí er dagur vonar um að kúgunin taki enda. Fyrsti maí er dagur vilja fjöldans til að taka völdin af hinum fáu. Og fyrsti maí er dagur vissunnar um að með samstöðu alþýðufólks sé veturinn að baki og framundan vor, sumar og uppskera erfiðis okkar. Vorið er loforð framtíðarlandsins og framtíðin er ykkar.
Fyrir rúmum hundrað árum gengu landsmenn í gegnum djúpa kreppu, þá sem vísað er til þegar lýsa á dýpt og eyðileggingarmætti þess hruns sem við stöndum nú frammi fyrir. En innan þeirrar kreppu urðu straumhvörf í baráttu alþýðunnar fyrir réttlátara samfélagi. Fyrsta kreppuárið fengu konur og eignarlausir karlar að kjósa fulltrúa til Alþingis eftir langa baráttu. Alþýðusamband Íslands var stofnað sama ár og þar með Alþýðuflokkurinn, pólitískur armur verkalýðshreyfingarinnar. Undir árslok var Framsóknarflokkurinn stofnaður, stjórnmálaarmur samvinnuhreyfingarinnar, annarrar fjöldahreyfingar sem barðist fyrir jöfnuði og auknum völdum almennings.
Með því að mæta kreppu auðvaldsins með endurnýjun hins lýðræðislega vettvangs og skipulögðu starfi fjöldans tókst almenningi að umbreyta samfélaginu, brjóta niður vald borgaralegra afla og knýja á um og framkvæma margar réttarbætur til almennings. Ef telja ætti upp allar þær umbætur á kjörum og réttindum sem rekja má til þessa upphafs, yrði listinn langur. Við getum stytt hann niður í eftirfarandi fullyrðingu: Allt það sem mikilsvert er í hinu skipulagða samfélagi landsmanna í dag má rekja til þessa upphafs. Það sem gott er má rekja til samtakamátts og virkra stjórnmálaþátttöku alþýðunnar.
Það sem hins vegar skyggir á sól réttlætisins má rekja til kúgunaraflanna, peningavaldsins sem er andstæða lýðræðis og vinnur ætíð gegn hagsmunum fjöldans. Það nær sínu fram þegar alþýðan slakar á og þegar fámennar klíkur ná að brjóta undir sig baráttutæki hennar.
Og eins og það er staðreynd að allt gott í skipulögðu samfélagi okkar megi rekja til samstöðu alþýðunnar og virkrar þátttöku fjöldans; þá er það staðreynd að peningavaldið náði yfirhöndinni í baráttu sinni gagn hagsmunum almennings þegar baráttutæki alþýðunnar höfðu verið skemmd og löskuð. Hrörnun hreyfinga alþýðunnar og stjórnmálaflokka hennar var forsenda fyrir sigri peningavaldsins, stórsóknar auðvaldsins sem kölluð hefur verið nýfrjálshyggja og sem kerfisbundið hefur á síðustu áratugum brotið niður ávinninginn af réttinda- og frelsisbaráttu fjöldans, sem rekja má til viðbragða alþýðunnar við kreppunni sem reið yfir fyrir rúmum hundrað árum.
Við upphaf nýrrar kreppu gengur verkalýðshreyfingin í gegnum endurreisnartíma. En er ekki útséð um hvort þeim sem treyst hefur verið fyrir að leiða þá hreyfingu takist að virkja fjöldann til þátttöku og krefjast þess að verkalýðshreyfingin, baráttutæki og brjóstvörn alþýðunnar, móti viðbrögð samfélagsins við komandi kreppu. Það er sögulegt hlutverk hreyfingarinnar. Framtíð samfélagsins veltur á því að forysta hreyfingarinnar átti sig á hlutverki sínu, greini stöðuna rétt, endurræsi baráttuþrek alþýðunnar og knýi fram réttlæti, jöfnuð og aðgerðir byggðar á samkennd og mannvirðingu.
Það er enga lausn að finna á vettvangi stjórnmálanna, sem enn eru helsjúk af hugmyndakerfi nýfrjálshyggjunnar. Eftir áratuga niðurbrot hins lýðræðislega vettvangs, valds fjöldans gagnvart peningavaldinu, eru stjórnmálaflokkarnir aðeins fámennar klíkur valdafólks sem hafa brotið niður allt grasrótarstarf og notar flokkana aðeins til að tryggja sér status og afkomu. Og hafa beygt fyrrum baráttutæki alþýðunnar gagnvart kröfum auðvaldsins um að flytja æ meiri völd frá hinum lýðræðislega vettvangi, þar sem hver maður hefur eitt atkvæði, yfir á hinn svokallaða markað, þar sem hver króna hefur sitt atkvæði og sá ræður mestu sem er ríkastur. Þegar forysta stjórnmálaflokkanna hefur misst tengsl við raunveruleikann sem alþýða manna býr við, hefur hún ekkert að selja annað en sjálfa sig. Þannig er afskræming lýðskrumsstjórnmálanna skilgetið afkvæmi nýfrjálshyggjunnar, linnulaus áróður fyrir að fólk sem krafsað hefur sig til áhrifa innan klíkuvæddra flokka sé ekki aðeins boðberar lausnarinar heldur lausnin sjálf. Þetta á ekkert síður við um forystuna í íslenskum stjórnmálum en popúlískt forystufólk í öðrum löndum.
Sósíalisminn er andstæða þessara stjórnmála. Sósíalisminn er lýðhyggja sem veit að lýðræði og virk þátttaka fjöldans við mótun samfélagsgerðarinnar er lykilinn að góðu samfélagi. Sósíalisminn krefst þess að fjöldinn taki valdið til sín, endurheimti það frá hinum fáu auðugu og valdamiklu, og móti samfélagið út frá hagsmunum og þörfum alþýðunnar, hafi að leiðarljósi þrá hennar eftir réttlæti, öryggi, frið, manngæsku og virðingu. Sósíalisminnn leggur traust sitt á vit og réttsýni heildarinnar, veit að aðeins með lýðræðislegri baráttu alþýðunnar mun takast að byggja upp samfélag sem þjónar allri heildinni. Sósíalisminn sendir ekki bænabréf eða óskalista til auðvalds eða stjórnmálaelítu. Sósíalisminn stendur fyrir vakningu fjöldans, skipuleggur hann til starfa og tekur völdin af kúgurum alþýðunnar.
Sósíalisminn er andsvar alþýðunnar við kúgun kapítalismans. Og Sósíalistaflokkur Íslands er andsvar við hnignun baráttutækja alþýðunnar. Eins og verkafólk rís upp á fyrsta maí og endurnýjar heit sitt um virka þátttöku til umbreytingar samfélagsins þannig vakna félagar í Sósíalistaflokknum upp á fyrsta maí og minnast stofnfundarins fyrir þremur árum, þar sem sósíalistar úr öllum deildum samfélagsins komu saman og ákváðu að breyta stjórnmálunum til að geta breytt samfélaginu.
Og nú er tíminn. Frammi fyrir komandi kreppu afhjúpast að það er aðeins með fullri virðingu fyrir alþýðu og samfélaginu í heild sem við getum mætt komandi ágjöf. Það er fyrst og fremst ríkisvaldið, sem sækir vald sitt á lýðræðisvettvanginn, sem hefur afl til að bregðast við, afl sem það sækir í sameiginlega sjóði okkar allra. Þessir sjóðir eru eign allra landsmanna jafnt, ekki sjóðir sem hin fáu, ríku og valdamiklu getu sótt í. Framtíð samfélagsins byggir á réttláttri nýtingu þeirra auðlinda sem almenningur á, orku, náttúru og fiskimiða, auðlinda sem eru forsenda þess að hér rísi gott samfélag eftir kreppuna. Ef einhver vill kalla eftir fjármunum, þá eru þeir fyrst og fremst í eigu eftirlaunasjóða launafólks.
Þannig er það alþýðan sem hefur í reynd valdið, aflið og getuna til að mæta kreppunni. Og kreppan hefur afhjúpað einmitt þetta; að vald hinna fáu byggir á aðgerðarleysi alþýðunnar gagnvart valdaráni kúgara sinna. Kapítalistarnir eiga ekkert sem alþýðan hefur ekki gefið þeim. Um leið og alþýðan rís upp mun hún taka sér vald yfir eigin samfélagi og fleygja auðvaldinu á dyr og þeim sem svikið hafa umboð sitt gagnvart almenningi og ætíð draga taum hinna fáu.
Heiðraði verkalýður og öll alþýða! Megi þessi fyrsti maí marka upphaf af völdum alþýðunnar yfir eigin samfélagi. Lifi byltingin, lifi sósíalisminn og lifi barátta hinna kúguðu fyrir réttlæti.
Þetta ávarp var borið upp og samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands 1. maí 2020.