Fréttablaðið birti í dag nýja skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna. Markverðugustu tíðindin úr þessari könnun eru þau að Framsóknarflokkurinn heldur áfram að tapa. Hann er kominn niður í 6.2% fylgi, missir fjórðung fylgis frá síðustu könnun og hefur fallið úr 10.7% fylgi í kosningunum fyrir tveimur árum niður í 6.2% nú. Samkvæmt því hefur flokkurinn misst 42% af því fylgi sem hann náði í kosningunum en það var minnsti stuðningur við flokkinn í hundrað ára sögu hans.
Fyrir utan fylgistap Framsóknar eru niðurstöður könnunar Fréttablaðsins í meginatriðum svipaðar og kannanir hafa sýnt í sumar. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur stuðnings 21.5% kjósenda en hafði 25.3% í kosningunum. Flokkurinn fengi 15 menn kjörna á Alþingi samkvæmt þessu og tapaði einu sæti. Samfylking hlyti stuðning 14% kjósenda sem gæfi þeim 10 þingmenn. Miðflokkur, Vinstri græn, Viðreisn og Píratar eru allir með svipað fylgi, frá 11.4% til 12.9%. Viðreisn bætir mestu við sig, fengi nú 11.4% en var með 6.7% í kosningunum fyrir tveimur árum. Þessir flokkar fengju 8-9 þingmenn hver en Framsókn ekki nema 5 þingmenn, alla af landsbyggðinni. Flokkurinn er kominn niður í 2% fylgi á höfuðborgarsvæðinu og er að þurrkast þar út. Ekki má mikið út af bregða til að Framsóknarflokkurinn komi engum manni á Alþingi Íslendinga. Það yrði saga til næsta bæjar ef það yrði endirinn á hundað ára sögu flokksins.
Aðrir flokkar eru neðan við 5% mörkin og fengju því engan mann kjörinn á Alþingi. Samkvæmt þessari könnun er ríkisstjórnin kolfallin eins og allar kannanir hafa sýnt í langan tíma. Allir stjórnarflokkarnir tapa fylgi og þingmönnum, samtals 7 fulltrúum frá síðustu kosningum.
Á netmiðlum í dag hafa birst vangaveltur Sigurjóns M. Egilssonar þar sem hann telur að Framsóknarflokkurinn verði að skipta um forystu eigi hann að lifa af. Sigurjón hefur ekki trú á að Sigurður Ingi Jóhannsson geti snúið óheillaþróuninni við og verði að víkja fyrir Lilju Alfreðsdóttur varaformanni. Sigurjón telur sig hafa heimildir fyrir því að Sigurður Ingi íhugi að víkja og að hann vilji þá að Ásmundur Einar Daðason tæki við formennskunni frekar en Lilja.
Hvað sem líður vangaveltum hins reynda blaðamanns, Sigurjóns M. Egilssonar, leynir sér ekki að Framsóknarflokkurinn er í útrýmingarhættu ef ekkert markvert gerist varðandi stöðu flokksins. Svo má velta því fyrir sér hvort brotthvarf flokksins af þingi yrði mikill skaði eða ekki. Þeir stuðningsmenn sem enn eru eftir í flokknum gætu þá forðað sér yfir í Miðflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn sem standa báðir fyrir svipaða stefnu og gildi og gamli Framsóknarflokkurinn.