Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru að ganga frá stjórnarsáttmála og eru sammála um allt.
Enginn afgerandi ágreiningur er milli flokkanna enda er þarna um að ræða þrjá Framsóknarflokka sem eru að hlekkja sig saman um völd og kyrrstöðu.
Engar breytingar verða gerðar á stjórnarskránni, ekki verður snert við gjafakvótakerfinu í sjávarútvegi, landbúnaðarsukkið fær að haldast óbreytt, engar breytingar í gjaldmiðlamálum, einangrunarhyggja verður efld og ríkisumsvif verða ekki minnkuð.
Góðu fréttirnar eru þær að skattar verða óbreyttir. Skattahækkunaráform VG upp á 50 milljarða á ári étur flokkurinn ofan í sig fyrir stól forsætisráðherra.
Vondu fréttirnar eru aftur þær að ríkisútgjöld til velferðarmála verða aukin um alla vega þessa 50 milljarða á ári án þess að vera fjármögnuð. Verður leyst fyrir árið 2018 með umframarði frá ríkisbönkunum. En það verður bara hægt einu sinni. Því mun koma að skuldadögum eftir eitt ár þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2019.
Því er spáð að þá falli ríkisstjórnin og efnt verði til kosninga í febrúar 2019.
Landsmenn geta því beðið þessa Framsóknarflokkatilraun af sér þolinmóðir því ríkisstjórnin er andvana fædd.
Rtá.