Framsóknarflokkurinn fengi einungis 7,7% fylgi og 5 þingmenn kjörna ef kosið yrði núna. Þetta er niðurstaðan í könnun Maskínu sem nokkuð hefur verið vitnað í vegna vinsælda og óvinsælda ráðherra sem könnunin mældi ásamt fylgi einstakra flokka. Þar fær Sigríður Andersen algera falleinkunn sem kemur varla á óvart. Lilja Alfreðsdóttir kemur hins vegar best út úr þessari könnun sem er skondið í ljósi þess hve litlu hún hefur komið í verk þá 17 mánuði sem hún hefur verið í ráðuneyti menntamála.
Könnun þessi byggir á frekar litlu úrtaki en er engu að síður marktæk vísbending. Spurt var um fylgi stjórnmálaflokka. Þá kom í ljós að Sjálfstæðisflokkur bætir við sig fylgi frá síðustu kosningum og fengi 19 þingmenn, bætti við sig 3 þingsætum. Hinir stjórnarflokkarnir tapa hins vega miklu fylgi frá kosningunum. Framsókn tapaði 3 þingmönnum, þar á meðal sæti Lilju í Reykjavík. Fylgi VG hryndi úr 17,9% í kosningunum niður í 10,4% sem gæfi 6 þingmenn en 5 þingsæti töpuðust. Þar með væri ríkisstjórnin einungis með 30 þingsæti á bak við sig og fallin.
Stjórnarandstöðuflokkarnir Píratar, Samfylking og Viðreisn væru allir stærri en Vinstri græn samkvæmt þessari könnun. Píratar með 16,5% og 10 þingsæti, Samfylking með 13,5% og 9 sæti en Viðreisn með 11,5% og 7 þingsæti í stað 4 í síðustu kosningum.
Evrópusinnuðu flokkarnir Viðreisn, Samfylking og Píratar ern nú með 26 þingsæti miðað við könnun Maskínu en höfðu samtals 17 þingmenn í síðustu kosningum - hafa samtals bætt við sig heilum 9 þingsætum. Það er sterk vísbending um að straumhvörf séu að verða í afstöðu kjósenda til ESB og evru.
Bæði Miðflokkur og Flokkur fólksins tapa miklu fylgi frá kosningunum.
Þessi könnun er alveg á sama róli og aðrar kannanir sem sýna að Framsókn, og ekki síður Vinstri græn, eru að stórtapa fylgi í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. VG er að festast í kringum 10% og nálgast það mark að hafa tapað helmingi kjörfylgis frá kosningunum haustið 2017.
Það er ekki uppörvandi fyrir Katrínu Jakobsdóttur að leiða ríkisstjórn og vera rúin trausti og fylgi
Framsókn tapar enn samkvæmt könnun maskínu
Fleiri fréttir
Nýjast