Framsókn tapar enn samkvæmt könnun maskínu

Framsóknarflokkurinn fengi einungis 7,7% fylgi og 5 þingmenn kjörna ef kosið yrði núna. Þetta er niðurstaðan í könnun Maskínu sem nokkuð hefur verið vitnað í vegna vinsælda og óvinsælda ráðherra sem könnunin mældi ásamt fylgi einstakra flokka. Þar fær Sigríður Andersen algera falleinkunn sem kemur varla á óvart.  Lilja Alfreðsdóttir kemur hins vegar best út úr þessari könnun sem er skondið í ljósi þess hve litlu hún hefur komið í verk þá 17 mánuði sem hún hefur verið í ráðuneyti menntamála. 

Könnun þessi byggir á frekar litlu úrtaki en er engu að síður marktæk vísbending. Spurt var um fylgi stjórnmálaflokka. Þá kom í ljós að Sjálfstæðisflokkur bætir við sig fylgi frá síðustu kosningum og fengi 19 þingmenn, bætti við sig 3 þingsætum. Hinir stjórnarflokkarnir tapa hins vega miklu fylgi frá kosningunum. Framsókn tapaði 3 þingmönnum, þar á meðal sæti Lilju í Reykjavík. Fylgi VG hryndi úr 17,9% í kosningunum niður í 10,4% sem gæfi 6 þingmenn en 5 þingsæti töpuðust. Þar með væri ríkisstjórnin einungis með 30 þingsæti á bak við sig og fallin.

Stjórnarandstöðuflokkarnir Píratar, Samfylking og Viðreisn væru allir stærri en Vinstri græn samkvæmt þessari könnun. Píratar með 16,5% og 10 þingsæti, Samfylking með 13,5% og 9 sæti en Viðreisn með 11,5% og 7 þingsæti í stað 4 í síðustu kosningum.

Evrópusinnuðu flokkarnir Viðreisn, Samfylking og Píratar ern nú með 26 þingsæti miðað við könnun Maskínu en höfðu samtals 17 þingmenn í síðustu kosningum - hafa samtals bætt við sig heilum 9 þingsætum. Það er sterk vísbending um að straumhvörf séu að verða í afstöðu kjósenda til ESB og evru.

Bæði Miðflokkur og Flokkur fólksins tapa miklu fylgi frá kosningunum.

Þessi könnun er alveg á sama róli og aðrar kannanir sem sýna að Framsókn, og ekki síður Vinstri græn, eru að stórtapa fylgi í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. VG er að festast í kringum 10% og nálgast það mark að hafa tapað helmingi kjörfylgis frá kosningunum haustið 2017.

Það er ekki uppörvandi fyrir Katrínu Jakobsdóttur að leiða ríkisstjórn og vera rúin trausti og fylgi