Hafin er umfangsmikil tilraun til rústabjörgunar hjá Framsóknarflokknum. Eftir átakafund í miðstjórn Framsóknar sem fram fór á Akureyri um helgina er orðið ljóst að flestir forystumenn flokksins gera sér grein fyrir því að flokkurinn verður að losa sig við Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann. Takist það ekki verður vígstaða flokksins í komandi kosningum algerlega vonlaus.
Ræða Sigmundar Davíðs á fundinum var skelfileg í þeim skilningi að þar talaði maður sem virðist haldinn ofsóknaræði á hættulegu stigi. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra tók til máls í almennum umræðum eftir þessa ræðu og lýsti því yfir að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi varaformennsku í flokknum að órreyttri forystu. Ljóst er að hann er búinn að fá nóg af Sigmundi Davíð og skyldi engan undra.
Jónas Kristjánsson orðaði skoðun sína á málflutningi Sigmundar með þessum hætti: “Minnisstæð ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundi Framsóknar var ekki bara nútímareyfari með njósnurum, hökkurum og hlerurum. Fór líka aftur um tvær aldir og lýsti orrustunni við Waterloo, skothríðinni, slátruninni og riddurunum. Mér skildist að þetta yrði framtíð Framsóknar. Enda kom í ljós, að Sigurður Ingi forsætis gagnrýndi formanninn og raunar flokksstjórn hans. Sagðist ekki vilja vera varaformaður í sliku samkvæmi. Þar með er uppreisnin hafin gegn Sigmundi Davíð.”
Sigurður Ingi Jóhannsson hélt öfluga ræðu á fundinum sem hlaut mjög góðar undirtektir fundarmanna sem hvöttu hann eindregið til að bjóða sig fram til formennsku í Framsóknarflokknum á flokksþingi sem fram fer dagana 1. og 2. október nk. Sigmundur Davíð tók ræðu varaformannsins mjög illa og svaraði með reiðilestri.
Hann man greinilega ekki lengur hvers vegna hann var hrakinn frá völdum í byrjun apríl á síðasta vori og virðist líta á Tortóla-viðskipti þeirra hjóna sem ómerkilegt plott á vegum RÚV.
Augu miðstjórnarmanna Framsóknar eru nú endanlega að opnast fyrir því að vígstaða þeirra í komandi kosningum er engin ef þeir þurfa að eyða allri kosningabaráttunni í að verjast vegna Panamaskjala og brasks formannsins í skattaskjóli Tortóla. Flokkurinn hefur þegar skaðast vegna þessa og mun gjalda málsins hvernig sem allt fer. Staða Framsóknar verður þó miklu skárri ef tekst að ýta Sigmundi Davíð út.
Einn þeirra sem fer ekki dult með þá skoðun sína að Sigmundur Davíð verði að víkja, sagði um helgina: “Ef hann fer ekki núna þá getum við alveg eins lagt í kosningabaráttuna undir slagorðinu FRAMSÓKNARLAUST ÍSLAND 2016.”
Tilraun til rústabjörgunar er hafin af flullum krafti innan Framsóknar