Framsókn er komin niður í 4 þingmenn og Samfylking í 5 þingmenn samkvæmt skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í morgun. Björt framtíð kæmi ekki manni á þing.
Samkvæmt þessari könnun mælist Framsókn með 6,5% fylgi en var með 24,4% í kosningunum 2013. Með þessu hefði flokkurinn tapað 15 þingmönnum. Samfylkingin mælist með 7,4% fylgi en hafði 12,9% í kosningunum. Björt framtíð fer úr 8,2% í 3,1% sem þýddi að flokkurinn næði ekki manni inn á þing.
Þessi nýjasta könnun sýnir að ekki þarf mikið út af að bregða til viðbótar hjá Framsókn og Samfylkingu til þess að flokkarnir þurrkist alveg út af þingi eins og virðast vera örlög Bjartrar framtíðar. Það yrðu mikil tíðindi ef forystuflokkur ríkisstjórnar, flokkur sem er með forsætisráðherrann, kæmi ekki manni að í næstu kosningum og eins að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn færi sömu leið.
Í könnun Fréttablaðsins eru Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn með um 30% hvor og VG með um 20%.
Ljóst er að núverandi miðjuflokkar eru beinlínis í útrýmingarhættu.
Nú er að skapast meira svigrúm en nokkru sinni fyrr fyrir flokk eins og Viðreisn á miðjunni og til hægri á sama tíma og Samfylking, Björt framtíð og Framsókn eru að hrynja. Stofnfundur Viðreisnar verður haldinn þann 24. mai nk. Hárrétt tímasetning fyrir þann flokk að koma fram af fullum krafti.
Um leið og þessir atburðir gerast, birtir einn af þeim sem sækjast eftir formennsku í Samfylkingunni grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann leggur til að Samfylkingin verði lögð niður. Það er trúlega heimsmet!