Framsókn misnotar einkennisbúning

Það verður að teljast mjög ósmekklegt að frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík sem skipar efsta sæti listans skuli koma fram í auglýsingum og kynningum klæddur einkennisbúningi flugmnna hjá Icelandair.

Það getur ekki verið að forráðamenn flugfélagsins séu ánægðir með þetta. En þeir geta trúlega ekkert gert í málinu því þetta er ekki ólögmætt. En hinsvegar getur varla verið mikill ágreiningur um að það er vægast sagt ósmekklegt að skarta einkennisbúningi fyrirtækis í kosningabaráttu.

Ætli mönnum þætti við hæfi að strætisvagnabílstjóri sem færi í framboð birtist á myndum í einkennisbúningi Strætó? Eða að Víkingarsveitarmaður sem færi í framboð kæmi fram í auglýsingum undir alvæpni og í fullum skrúða? Sömu spurninga mætti spyrja um lækna, tollverði eða sýslumenn. Enginn getur bannað fólki að koma fram með þessum hætti. En er ekki hægt að gera lágmarkaskröfur um tilitssemi og smekkvísi?

Framsóknarflokkurinn er ekki að gera mikla lukku í Reykjavík. Fylgi flokksins hefur mælst kringum 3% í skoðanakönnunum en var yfir 10% fyrir fjórum árum. Miðflokkurinn virðist vera að stela frá þeim senunni – þrátt fyrir að flugstjórinn í efsta sæti birtist ábúðarmikill á svipinn með flugmannshúfu og gullstrípur á jakkaermum.

Rtá.