Mikið írafár greip um sig meðal þeirra Framsóknarmanna sem trúa á Sigmund Davíð eftir að Sigurður Ingi hafði fellt hann í formannskjörinu. Formaður flokksfélagsins í Reykjavík sagði vera svik í tafli og dugði ekki minna en burðarfrétt á forsíðu Fréttablaðsins þriðjudaginn 4. október. Svindlað í formannskjöri sagði hann og hin trúfasta Guðfinna borgarfulltrúi var með það á hreinu hvaða öfl hefðu verið að verki: „Flokkseigendafélagið og fjármagnsöflin tóku völdin í flokknum af grasrótinni.“
Ef við eigum að taka Guðfinnu trúanlega verðum við að skoða málið aðeins. Fyrst fyrri hluta fullyrðingarinnar, að flokkseigendafélagið hafi \"tekið völdin\" í flokknum. Hvernig má það vera? Hafa ekki \"flokkseigendur\" völdin? Þurfa þeir að taka þau? Eru þeir ekki flokkseigendur beinlínis vegna þess að þeir hafa völdin? Og - bíðum við! Er ekki Sigmundur Davíð aðalflokkseigandinn?
Hver eru þá \"fjármagnsöflin\" sem spilltu kjöri Sigmundar? Morgunblaðið, með útgerðarauðvaldið að baki sér, studdi hann með ráðum og dáð. Einn helsti stuðningsmaður Mogga er Þórólfur kaupfélagsstjóri á Króknum. Hann var reyndar ekki í sama liði og Mogginn í þetta skiptið sem er nýtt og útaf fyrir sig mikil tíðindi. Hann sameinaðist Guðna í stuðningi við Sigurð Inga. Kannski á Guðfinna við það? Samsæri Þórólfs og Guðna gegn Sigmundi? Eru þeir \"fjármagnsöflin\"?
Ekki gott að segja! En - margt skringilegt kemur fram um fjármagnsöflin og Framsókn þegar leitað er á netinu með hjálp Hr. Google (eins og Davíð kallar leitarvélina).
Framsóknarflokkurinn er skuldugur uppfyrir haus. Eins og aðrir stjórnmálaflokkar þarf hann að gera Ríkisendurskoðun grein fyrir fjárreiðum sínum og skila þangað ársreikningum (lög nr. 162/2006, 9. gr.). Skv. ársreikningi 2013 skuldaði flokkurinn í lok þess árs 243 milljónir króna. Eigið fé var neikvætt um 71 milljón.
Þegar flokkar skulda svona mikið verður flokksforystan að gera ítthvað. Það hafði vissulega verið gert hjá Framsókn. Áður en skuldirnar voru 243 milljónir. Dæmi um það er í frétt DV frá 26. janúar 2011, þar segir:
\"Sterkar vísbendingar eru um að einn eða fleiri stjórnmálaflokkar hafi fengið skuldir sínar við Búnaðarbankann afskrifaðar þegar hann var seldur S-hópnum í ársbyrjun 2003 og hann sameinaður Kaupþingi. Gömul skuld Framsóknarflokksins við bankann var greidd upp eða afskrifuð það sama ár.\" Síðan þetta: \"Framsóknarflokkurinn tók í apríl 1993 14,5 milljóna króna lán hjá Búnaðarbankanum sem jafngildir um 32 milljóna króna láni að núvirði. Útgefandi skuldabréfsins var Framsóknarflokkurinn og forsvarsmaður Halldór Ásgrímsson þáverandi formaður flokksins.\"
Greinilega er það ekkert nýtt að fjármagnsöflin ríði röftum framsóknarfjóssins!
Og það er rétt hjá Guðfinnu að þau eru enn að verki, ef marka má frétt Fréttatímans frá 9.9.2016 þar sem sagt er frá því að einhver \"huldufjármagnsöfl\" eigi þinglýst tryggingabréf með veði í húsi Framsóknarflokksins upp á 50 milljónir króna. Ekki fást upplýsingar um hver eigi kröfuna.
Og Framsóknarflokkurinn er ekki sérlega áfjáður í að upplýsa um fjárhagsstöðu sína ef marka má frétt Kjarnans frá 4. júlí: \"Kjarninn kannaði núverandi fjárhagsstöðu allra flokka sem hyggjast bjóða fram til Alþingis í haust. Ekki fengust svör frá Samfylkingu eða Framsóknarflokki. Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð vildu ekki gefa upp nákvæma stöðu.\"
Af þessum dæmum má auðveldlega sjá að trúlega er það rétt hjá Guðfinnu að Framsóknarflokkurinn er á valdi \"fjármagnsafla.\" Spurningin er bara: Hvaða öfl eru það? Gamla flokkseigendafélaginu er ekki lengur til að dreifa, þessu sem áttu flokkinn um og upp úr aldamótum og fékk skuldahalaklippingu við einkavæðingu Búnaðarbankans. Auðjöfrarnir sem eftir eru ... það eru eiginlega bara Sigmundur Davíð og frú annars vegar og hins vegar Gunnlaugur Sigmundsson, faðir hans. Ætli það séu þeir sem hafa flokkinn í taumi fyrir tilstilli tryggingarbréfsins upp á 50 milljónir?
Eitthvað hefur þá ekki gengið upp hjá þeim fyrst sjálf grasrót flokksins reis gegn þeim og varpaði Sigmundi á dyr, flokkseigandanum sjálfum og persónugerfingi fjármagnsaflanna! Var hann kannski að vísa til þess þegar hann skrifaði á Facebook-síðu sína \" ... á flokksþinginu og í aðdraganda þess urðu atburðir sem ég hefði ekki trúað að gætu átt sér stað í Framsóknarflokknum\"?