Félagi minn Dagfari hér á Hringbraut birti fyrir nokkrum dögum greiningu á forystukreppu í Sjálfstæðisflokknum sem ég las af athygli. Eftir lesturinn kom mér í hug hvers vegna hann hefði ekki byrjað á að tala um það öldurót sem er í hinum stjórnarflokknum, Framsókn. Vandinn í Sjálfstæðisflokknum er vissulega mikill en hann er þó hátíð miðað við ástandið hjá Framsóknarflokknum. Sjálfstæðismenn velta fyrir sér hvort formaður þeirra komist klakklaust gegnum næstu kosningar vegna Tortólamála sem hann hefur ekki svarað fyrir en í Framsókn er forystuvandinn nú þegar áþreifanlegur og fyrirliggjandi.
Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra þá var teningunum kastað hjá Framsókn og allir skynsamir menn sjá að ekki verður aftur snúið. Ferill Sigmundar Davíðs í stjórnmálum hófst með skjótum hætti og honum lauk með skjótum hætti. Flestum er þetta ljóst nema Sigmundi sjálfum, föður hans og nokkrum öðrum úr hans allra nánasta umhverfi. Framsóknarmenn eru í algerri kreppu út af Sigmundi Davíð sem segist ætla að vera áfram formaður og leiða flokkinn í næstu kosningum. Hann hræðist ekkert og hafi ekkert að fela. Hann ætli að koma til kosningabaráttunar og tala um öll góðu málin sem hann telur sig hafa komið í verk og verðskuldi hrós fyrir. Aðrir ráðherrar og þingmenn flokksmenn gera sér ljóst að Sigmundur Davíð mundi eyðileggja vígstöðu flokksins gjörsamlega haldi hann áfram en þá skortir kjark til að segja þetta upphátt og leiða honum þetta fyrir sjónir. Því gæti farið svo að hann sæti áfram í óþökk forystu flokksins en aðstæðingum hans til ómældrar gleði. Enginn vill verða fyrstur til að segja að keisarinn er ekki í neinum fötum.
Talið er að fylgi Framsóknar verði varla meira en 7-9% ef Sigmundur heldur áfram en gæti farið upp í 12-14% hverfi hann af sviðinu án mikilla átaka og illindi í flokknum. Það skiptir vitanlega máli hvort Framsóknarflokkurinn færi 6 eða 10 þingmenn í komandi kosningum. Hann náði 19 þingmönnum síðast og víst er að mörg þeirra þingsæta hljóta að tapast.
Ljóst er að einhverjir af núverandi þingmönnum Framsóknar ætla að hverfa af vettvangi, vilja ekki falla í prófkjörum eða kosningum. Sigrún Magnúsdóttir hefur tilkynnt að hún muni hætta í haust, sama gerði Frosti Sigurjónsson sem leiddi lista flokksins í Reykjavík norður og nú síðast tilkynnti Vigdís Hauksdóttir sem leiddi listann í Reykjavík suður að hún gæfi ekki kost á sér áfram. Þetta þykir benda til þess að verið sé að ryðja sviðið til að hleypa Lilju Alfreðsdóttur á toppinn hjá flokknum í Reykjavík en hún tók óvænt við embætti utanríkisráðherra þegar Sigmundur Davíð hrökklaðist frá í byrjun apríl sl.
Þá hefur það vakið talsverða athygli að 5 af þingmönnum Framsóknar hafa stundað háskólanám með þingstörfunum. Þykir það ekki benda til mikils áhuga þeirra á stjórnmálum og er ótvírætt lítilsvirðing við þingið, vinnusvik myndu margir segja. Þetta fólk getur þá snúið sér að náminu af fullum krafti þegar dvölinni í þinginu lýkur næsta haust.
Einu góðu fréttirnar hjá Framsókn eru þær að Sigurður Ingi Jóhannsson, sem tók við starfi forsætisráðherra, hefur þótt nokkuð farsæll í starfi. Alla vega hefur hann hvorki æst þing né þjóðina upp á móti sér eins og Sigmundur Davíð gerði. En spurningin er hins vegar sú hvort hann fær næði til að halda áfram að veita flokknum forystu. Það mun ekki gerast ef Sigmundur Davíð víkur ekki eins og virðist vera ásetningur hans.
Fíllinn í postulínsversluninni gengur enn laus í boði Framsóknarflokksins. Á meðan böndum verður ekki komið á hann gleðjast allir andstæðingar flokksins innilega.