Framsóknarfólk er landsmanna líklegast til að vera með jólatré í stofu sinni samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR um algengi jólatrjáa á heimilum fólks. Kjósendur Bjartrar framtíðar eru minnst fyrir þessi tré, en VG-liðar velja helst af öllu lifandi tré.
Gervitré virðast viðhalda vinsældum sínum. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 54,9% ætla að vera með gervitré í ár sem er um 5 prósentustigum meira en var fyrir fimm árum.
Á móti hefur dragið saman í þeim hópi Íslendinga sem ætla að hafa lifandi jólatré um jólin. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 31,9% ætla að vera með lifandi tré, borið saman við 32,4% í desember 2014 og 41,6% fyrir fimm árum síðan. Þá voru 13,6% sem sögðust ekki ætla að vera með neitt jólatré á sínu heimili í ár, borið saman við 11,7% í desember 2014 og 8,8% í desember 2010
Hlutfall þeirra sem sagðist ætla að hafa lifandi jólatré hækkaði með auknum heimilistekjum. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu tekjuhæsta hópnum (milljón á mánuði eða meira) sögðust 48,5% ætla að vera með lifandi jólatré, borið saman við 35,1% í tekjuhópnum 800-999 þúsund á mánuði, 29,2% í tekjuhópnum 600-799 þúsund á mánuði, 37,3% í tekjuhópnum 400-599 þúsund á mánuði, 14,8% í tekjuhópnum 250-399 þúsund á mánuði og 16,8% í tekjulægsta hópnum (undir 250 þúsund á mánuði).
Af stuðningsfólki stjórnmálaflokka reyndust fylgjendur Bjartrar framtíðar ólíklegastir til að vera með jólatré (77,4%) en stuðningsmenn Framsóknarflokksins líklegastir til að vera með jólatré (96,2%). Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Bjarta framtíð sögðust 77,3% ætla að vera með jólatré á sínu heimili í ár, borið saman við 96,2% Framsóknarmanna.
Þeir sem studdu Vinstri græna voru líklegri en stuðningsmenn annarra flokka til að segjast ætla að vera með lifandi jólatré. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Vinstri græna sögðust 46,4% ætla að vera með lifandi jólatré, borið saman við 28,2% Pírata.