Framsókn gerir örvæntingarfulla tilraun í Reykjavík

Handboltamarkvörðurinn góðkunni, Björgvin Páll Gústafsson, hefur látið framsóknarmenn í Reykjavík, véla sig í framboð fyrir flokkinn í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Framsókn hefur nú engan borgarfulltrúa í Reykjavík en átta flokkar eiga fulltrúa í 23 manna borgarstjórn. Síðast var Framsókn langt frá því að ná manni inn og fékk heldur engan kjörinn árið 2014.

Að undanförnu hefur flokkurinn leitað logandi ljósi að þjóðþekktu fólki til að leiða lista Framsóknar nú í vor. Flokksmönnum er ekki treyst fyrir því verkefni heldur er leitað að utanaðkomandi þekktu fólki sem hefur getið sér orð á öðrum sviðum. Augum hefur verið beint að fjölmiðlamönnum, íþróttafólki, áhrifavöldum, listamönnum og jafnvel þjóðþekktu athafnafólki.

Undirtektir hafa engar verið fyrr en Björgvin Páll slær til. Engum sögum fer af áhuga hans á stjórnmálum eða stuðningi við framsóknarflokka fram til þessa. Forystumenn flokksins munu hafa gengið svo langt að bjóða Kára Stefánssyni sætið og uppskorið hláturskast frá honum – sem vonlegt er! Þá var formaður KSÍ nefndur, áhrifavaldurinn Edda Falak og Vitalia Lazareva sem fengið hefur mikla athygli í vetur. Þær litu ekki við hugmyndinni.

Þá hafa framsóknarmenn sóst eftir ýmsu nafnkunnu fjölmiðlafólki, ekki síst því sem er burtflogið frá ríkisútvarpinu. Ekki hafa þeir látið það stoppa sig þótt um yfirlýsta stuðningsmenn annarra flokka væri að ræða. Þannig mun Einar Þorsteinsson vera með tilboð frá þeim í höndunum, en hann hætti nýlega sem fréttamaður og þáttastjórnandi hjá sjónvarpinu. Einar er fyrrverandi formaður ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi en ekki virðist það trufla örvæntingarfullar tilraunir framsóknarmanna.

Þó að flokkurinn hafi bætt við sig fylgi í Reykjavík í síðustu þingkosningum segir það lítið um komandi borgarstjórnarkosningar. Fylgisaukninguna í Reykjavík má alfarið skrifa á miklar persónuvinsældir Ásmundar Einars Daðasonar ráðherra sem flutti sig til Reykjavíkur utan af landi og bjargaði annars óvinsælum Framsóknarflokki í borginni.

Vandinn er bara sá að Ásmundur verður ekki í framboði til borgarstjórnar í vor og því er gripið til óhefðbundinna neyðarúrræða.

- Ólafur Arnarson