Framsókn er þríklofinn flokkur

Framsóknarmenn eru ennþá að sleikja sár sín eftir síðustu kosningar þegar flokkurinn missti ellefu þingmenn, fór úr nítján þingmönnum í átta. Ekki nóg með það heldur datt Framsókn út úr ríkisstjórn og situr nú svekkt og valdalaus í sundurleitri stjórnarandstöðu, meðal annars með Pírötum sem fyrirlíta Framsókn. Það mun vera alveg gagnkvæmt.

 

Þessu til viðbótar liggur það fyrir að Framsóknarflokkurinn er þríklofinn:

 

  1. Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður eftir að hafa unnið sigur á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í harðri formannskosningu á flokksþingi haustið 2016. Sigmundur tók niðurstöðunni vægast sagt illa, rauk af fundi án þess að kveðja og vændi andstæðinga sína um að hafa haft rangt við án þess að sýna fram á það með skýrum hætti. Sigurður Ingi stýrði flokknum gegnum alþingiskosningarnar í lok október og bjargaði því sem bjargað varð þó niðurstaðan hafi orðið dapurleg. Talið er að flokkurinn hefði ekki komið manni á þing ef Sigmundur hefði setið áfram sem formaður.
  2. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá völdum sem forsætisráðherra í apríl 2016 vegna Tortólahneykslis. Sigurður Ingi tók þá við og stýrði hálfgerðri starfsstjórn fram til 11. janúar 2017 þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Margir héldu að Sigmundur dragi sig þá út úr stjórnmálum og gerði flokki sínum og þjóðinni þann greiða að skipta alveg um vettvang og flytja helst úr landi. En það gerði hann ekki og kunnugir telja að hann ætli sér að komast til valda í Framsókn að nýju, hvað sem það kosti. Hann hefur einnig látið í veðri vaka að hann gæti stofnað annan flokk. Í þeim anda gekkst hann fyrir stofnun einhvers konar málfundarfélags sem fékk nokkra fjölmiðlaathygli daginn sem stofnfundur fór fram að viðstöddum 150 manns. Síðan hefur ekki heyrst af þessum félagsskap. Sigmundur Davíð er sært dýr á hinum pólitíska vettvangi og af flestum talinn næsta óútreiknanlegur. Ætla má að hann reyni áfram fyrir sér á vettvangi stjórnmála því hann þráir völd. Peningar ættu ekki að trufla tilburði hans því nóg er til af þeim í kringum hann.
  3. Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknar bíður á hliðarlinunni eftir því að flokksmenn leiti til hennar um að taka við formennsku. Hún ætti þá að verða eins konar sáttasemjari milli stríðandi afla. Þetta er draumsýn sem er afar fjarlæg vegna þess að ekki er að sjá að þeir Sigurður Ingi og Sigmundur ætli sér að víkja eða sættast. Þeir standa gráir fyrir járnum og gefa sig ekki. Þá er á það að líta að Lilja er afar veikur kostur til forystu í flokknum. Hún var kölluð inn í ríkisstjórn í apríl 2016 þegar Sigmundur Davíð hraktist frá. Hún kom úr starfi hjá Seðalbanka Íslands og hafði ekki verið kosin til eins eða neins  í flokknum. Fyrir síðustu kosningar var hún svo í framboði og þá reyndi á pólitískan styrk hennar. Hún var leiðtogi Framsóknarflokksins í Reykjavík. Flokkurinn hafði sex þingmenn en undir forystu Liju töpuðust fimm þingmenn í Reykjavík. Hún komst ein inn í Reykjavík. Fimm þingmenn féllu. Þessi “árangur” getur varla verið gott vegarnesti fyrir þann sem vill verða formaður í flokknum. Hún er engu að síður þriðji kosturinn í formannsmálum Framsóknar. Þeir flokksmenn sem eru orðnir dauðleiðir á klofningi innan flokksins aðhyllast þá leið að veðja á Lilju. Þeir mynda þannig þriðja valdahópinn í þessum margklofna flokki.

 

Staða Framsóknarflokksins er afar veik. Ekki sér fyrir endann á valdabaráttu innan flokksins. Þrjár fylkingar munu takast á og enginn veit hvernig þeim átökum lýkur eða hvort þeim lýkur. Flokkurinn er lamaður í stjórnarandstöðu enda er samstarfið í þessum áttamanna þingflokki afleitt. Þar sitja fimm fyrrverandi ráðherrar og sakna valdatímans. Auk þeirra eru þar þrír aðrir þingmenn. Lítið fer fyrir Framsókn á Alþingi.

 

Svo styttist í sveitarstjórnarkosningar vorið 2018. Framsókn getur ekki vænst mikils árangurs í þeim kosningum. Í Reykjavík hefur flokkurinn verið í stjórnarandstöðu með Sjálfstæðisfokki. Þykir þessi stjórnarandstaða vera sú litlausasta og linasta sem sögur fara af. Ekkert bendir til þess að flokkurinn nái hljómgrunni í Reykjavík og reyndar ekki heldur í nágrannabæjum. Helst að hann njóti stuðnings í byggðalögum úti á landi eins og löng hefð er fyrir. Einkum í Skagafirði og á Austfjörðum. 

 

Á þessari stundu er fátt sem gefur tilefni til að spá vel fyrir Framsókn. En höldum samt áfram að njóta sumarsins!

 

 

rtá.