Framsókn að fara á taugum

Bjarni Benediktsson bætti ekki stöðuna þegar hann missti stjórn á skapi sínu inni á ritstjórn 365-miðla að viðstöddum mörgum vitnum. Fjömiðlar hafa skýrt frá því að forsætisráðherra hafi hrópað og öskrað eins og óður væri. Ekki batnaði það þegar hann lét baldna skólakrakka í Versló æsa sig upp á kosningafundi í skólanum þar sem 300 nýjir kjósendur hlustuðu furðu losnir á ráðherrann hella sér yfir nemanda sem var svo ónærgætinn að nefna Borgun, Panama og eitthvað fleira sem ekki má tala um í aðdraganda kosninga.

 

En það eru fleiri með þandar taugar þessa dagana en formaður Sjálfstæðisflokksins. Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, virðist heldur ekki ráða vel við sig enda er fylgi Framsóknar komið niður í 5,5% samkvæmt nýjustu skoðanakönnun. Það er vitanlega hættulega lítið fylgi fyrir flokkinn. Sigurður Ingi veit einnig að baráttan um gamla Framsóknarfylgið heldur áfram fram á kjördag þar sem Sigmundur Davíð mun halda áfram að draga lifandi eða dauðar kanínur upp úr hatti sínum.

 

Til þess að freista þess að fanga athygli fjölmiðla og kjósenda setti Framsókn fram afar einkennilega hugmynd sem flokkurinn vill gera að stefnumáli sínu. Svissneska leiðin sem Framsókn bendir á gengur út á að heimila fólki að taka út lífeyrissparnað sinn til að fjármagna íbúðarkaup.

 

Með því virðist Framsókn misskilja tilgang lífeyrissparnaðar sem gengur einungis út á að tryggja fólki sem best eftirlaun við starfslok. Með því að verja lífeyrissparnaðinum í eitthvað annað en að tryggja sem bestan lífeyri er fótum kippt undan tekjum fólks við starfslok. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur leyft sér að benda á þessa meinloku í málflutningi Framsóknarmanna og varar við því að opnað sé á þann möguleika að fólk geti grafið undan eftirlaunum sínum með þessum hætti. Gylfi telur að ekki sé bæði hægt að éta kökuna og eiga hana.

 

Formaður Framsóknar bregst við þessum ábendingum forseta ASÍ með fúkyrðum þar sem hann vænir Gylfa Arnbjörnsson um að vinna gegn almenningi án þess að færa fyrir því nokkur nothæf rök.

 

Gylfi Arnbjörnsson hefur þvert á móti gætt hagsmuna launþega og alls almennings í landinu um áratugaskeið. Leitun er að manni sem hefur eins mikla þekkingu á lífeyrissjóðakerfinu og Gylfi. Framsóknarmenn hefðu frekar átt að ráðfæra sig við hann áður en þeir vörpuðu umræddri delluhugmynd fram.

 

Ef Sigurður Ingi Jóhannsson hefði spurt Gylfa Arnbjörnsson álits fyrirfram, þá hefði forseti ASÍ getað gripið til líkingar sem bóndinn Sigurður Ingi hefði átt gott með að skilja.

 

Gylfi hefði getað bent formanni Framsóknar á þá staðreynd að sá sem étur útsæðið uppsker ekki.

 

Rtá.