Vinstri grænir í Norðausturkjördæmi velja sér frambjóðendur með forvali í næsta mánuði. Birt hafa verið nöfn tólf frambjóðenda sem vilja freista þess að fylla skarð Steingríms J. Sigfússonar sem hverfur nú af sviðinu eftir nær hálfan mannsaldur á þingi. Enginn í þessum hópi er líklegur til að geta leitt flokkinn til mikils árangurs í kjördæminu eins og Steingrímur hefur gert. Ætla má að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, núverandi Alþingismaður eigi fyrsta sætið nokkuð víst í þessu forvali. Margir eru spenntir fyrir að ná öðru sæti sem verið hefur þingsæti en samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er ólíklegt að svo verði í kosningunum næsta haust. Hér er því spáð að Óli Halldórsson á Húsavík nái öðru sætinu og Ingibjörg Þórðardóttir, Neskaupstað, hreppi þriðja sætið. Aðrir frambjóðendur eru ekki líklegir til afreka í forvalinu.
Kjarninn fjallar í gær um framboðsmál flokka á grundvelli skoðanakannana frá Maskínu frá í desember og janúar. Þar kemur fram að Vinstri græn eiga í miklum erfiðleikum á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og sumir flokkar bæta myndarlega við sig. Það á einkum við um Samfylkinguna og Viðreisn. Þá kemur Sósíalistaflokkurinn nýr inn og tekur greinilega hraustlega til sín fylgi frá Vinstri grænum. Í Reykjavík norður, þar sem Katrín Jakobsdóttir leiðir lista þeirra, tapar flokkurinn tæpum helmingi fylgis frá síðustu kosningum, fer úr 21,5 prósent í 12,5 prósent. Stundin telur að við það fengi flokkurinn einungis einn mann kjörinn í stað þriggja haustið 2017. Í hinu kjördæminu fer fylgi Vinstri grænna úr 18,9 prósent í 12,8 prósent og þar með missir flokkurinn einn þingmann.
Í Suðvesturkjördæmi gætu orðið átök um fyrsta sætið sem Rósa Brynjólfsdóttir sat í síðast en hún er gengin í Samfylkinguna. Ólafur Gunnarsson, læknir og þingmaður flokksins í kjördæminu, hlýtur að sækjast eftir að leiða listann en hann kemur úr Kópavogi sem er helsta vígi Vinstri grænna í kjördæminu. Þó er talið að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, muni reyna að ná fyrsta sæti flokksins þarna. Ef marka má skoðanakannanir núna, mun flokkurinn einungis fá einn mann kjörinn í Suðvestur og því gætu orðið hörð átök um efsta sætið.
Lilja Rafney Magnúsdóttir sækist eftir að halda sæti flokksins í Norðvesturkjördæmi. Bjarni Jónsson á Sauðárkróki barðist við hana innan flokksins um forystusætið fyrir síðustu kosningar. Lilja Rafney hafði þá betur. Frekar er gert ráð fyrir að hann reyni aftur núna enda hefur lítið farið fyrir Lilju á yfirstandandi kjörtímabili. Það mun ekki breyta miklu hvort Lilja Rafney leiðir listann áfram eða einhver annar. Skoðanakannanir benda nú til þess að fylgi Vinstri grænna hafi dalað svo mikið í kjördæminu að alls sé óvíst um kjör efsta manns á lista þeirra í komandi kosningum. Brugðið getur til beggja vona.
Ari Trausti Guðmundsson, núverandi þingmaður Vinstri grænna í Suðurkjördæmi, hefur lýst því yfir að hann gefi ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Fram hefur komið að Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður flokksins í Reykjavík, vill freista þess að fá stuðning innan flokksins til að leiða listann í Suðurkjördæmi. Hann hefur greinilega gert sér ljóst að hann muni ekki ná kjöri í Reykjavík og hefur því ákveðið að róa á önnur mið. Af því tilefni hefur Kolbeinn rifjað upp að undanförnu gömul ættartengsl í sveitum á Suðurlandi mörgum til mikillar skemmtunar. Hins vegar bendir allt til þess að fyrsta sætið gæti fallið Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur í skaut, gefi hún kost á sér. Heiða Guðný er nú varaþingmaður flokksins í Suðurkjördæmi. Hún er mikil kjarnorkukona, sauðfjárbóndi í Skaftártungum, harður náttúruverndarsinni og stórglæsileg manneskja í alla staði. Hún er af mörgum talin bjartasta vonin í flokki Vinstri grænna og þeirra eina von til að tryggja flokknum fylgi í kjördæminu. Gefi hún kost á sér er engin von fyrir Kolbein Óttarsson Proppé - þó hann finni allnokkra gamla frændur í uppsveitum Árnessýslu!
Gefi Heiða Guðný kost ár sér í efsta sæti listans í Suðurkjördæmi, má ætla að flokkurinn fái einn mann kjörinn í öllum kjördæmum, eða sex samtals. Bætist sjöundi þingmaðurinn við, kæmi hann væntanlega úr Reykjavík norður, þó skoðanakannanir Maskínu dragi ekki upp vænlega mynd af stöðu flokksins þar nú sem stendur.