Fráleitt að náhvítar grænmetisætur séu betri í rúminu en kjötætur

Stundum finnst mér „frjálslynda fólkið“ vera að færa okkur aftur á miðaldir. Eins og þá er hættulegasta fólkið nú svokallaðir afneitunarsinnar (efasemdarfólk), sérstaklega þeir sem efast um að nánast allt líf á jörðinni eyðist á næstu 12 árum eða svo að öllu óbreyttu.

Nú er ég afar ánægður með að mannkynið standi í orkuskiptum og tel mikilvægt að það skilji eftir sig eins lítið spor og mögulegt er, að minnsta kosti þangað til að vísindin telji sannað að koltvísýringur og annað sem frá manninum kemur hafi gert jörðinni gott.

Svo lengi sem ég man hefur vísindalegum sannleik verið skvett framan í mig, jafnvel í flóknustu efnum þar sem takmörkuð þekking og gögn voru fyrir hendi. Minnisstæð er mér sú vísindalega staðreynd að samkynhneigð væri geðröskun og transfólk glímdi við geðsjúkdóm, ekki ósvipað og þeir sem glíma við anorexíu. Eitthvað hafa þau vísindi breyst á allra síðustu árum og hver veit nema vísindin sanni fljótlega að anorexíufólkið sé í raun spikfeitt.

Oft liggur í augum uppi að vísindaleg niðurstaða er beinlínis fráleit. Gott dæmi um það þegar einhverjir vísindamenn, sem aldrei höfðu farið út fyrir skólalóðina, komust að þeirri vísindalegu niðurstöðu að vinstri menn væru skemmtilegri og fyndnari en hægri menn.

Önnur og jafnfráleit vísindaleg niðurstaða er að náhvítar grænmetisætur væru betri í rúminu en kjötætur. Ætla að leyfa mér að afneita þessu þótt brenna eigi mig á báli.