Frænka Bjarna Ben sækir að erfðaprinsi flokksins á Seltjarnarnesi

Nú dregur til tíðinda í valdabaráttu Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi. Magnús Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs, var talinn eiga forystusæti flokksins frátekið nú þegar Ásgerður Halldórsdóttir kveður loks bæjarstjórastólinn. Hún náði einungis 46 prósenta fylgi í síðustu kosningum þegar flokkurinn var við það að missa völdin á Nesinu. Ljóst var að hún nyti ekki stuðnings til frekari stjórnmálafskipta enda gefur hún ekki aftur kost á sér.

Magnús Guðmundsson lýsti yfir vilja til að taka forystu og var reiknað með því að svo yrði. Hann er talinn talnaglöggur og nákvæmur en skortir pólitíska útgeislun. Sú staðreynd hefur valdið flokkseigendum nokkrum ugg enda á brattann að sækja á Nesinu

Nú hafa fjórir gefið kost á sér til að leiða lista flokksins á Seltjarnarnesi. Um það verður tekist á í prófkjöri þann 26. febrúar næstkomandi. Auk Magnúsar hefur Ragnhildur Jónsdóttir, náfrænka Bjarna Ben, gefið kost á sér í fyrsta sæti. Einnig Þór Sigurgeirsson, sonur Sigurgeirs Sigurðssonar, bæjarstjórans ástsæla, sem að flestra mati byggði Seltjarnarnes upp. Eftir að hann lét af starfi bæjarstjóra hefur nær engin framþróun orðið á Nesinu.

Fjórði frambjóðandinn í fyrsta sæti er Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur, sem getur ekki vænst mikils fylgis.

Gera má ráð fyrir spennandi kosningaslag. Erfðaprinsinn þarf nú að mæta mjög frambærilegri konu á vegum flokkeigenda. Slagurinn mun standa á milli þeirra – og þau munu rífa fylgi hvort af öðru.

Niðurstaðan gæti orðið sigur Þórs Sigurgeirssonar sem myndi flytja inn í bæjarstjórnina velvild og húmor sem nokkuð hefur skort þar hin síðari ár.

- Ólafur Arnarson