Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, mun ekki hjálpa til við að leysa forystukrísuna í Sjálfstæðisflokknum með þátttöku sinni í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Hún tilkynnti um framboð sitt í stóru viðtali við Fréttablaðið. Ætlar síðar að láta vita á hvaða sæti hún stefnir en segist stefna hátt enda ritari flokksins.
Auðvitað stefnir hún hátt því eitt af einkennum hennar er takmarkalaust sjálfsálit og nánast hroki. Furðu vekur að Fréttablaðið skuli birta þetta stóra viðtal við hana sem er eiginlega alveg eins og nokkur önnur drottningarviðtöl sem birst hafa við hana í öðrum fjölmiðlum, t.d. DV, þar sem hún sagði eiginlega allt það sama og fram kemur í viðtali FB. Eina sem er nýtt er yfirlýsing um framboð sem var reyndar búið að vera mjög illa varðveitt leyndarmál um hríð.
Áslaug Arna er þá enn einn lögfræðingurinn sem ætlar að vera ofarlega á lista hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Hún vill líta á sig sem frambjóðanda ungs fólks en er í raun og vera frambjóðandi flokkseigenda. Hún er dóttir Sigurbjörns Magnússonar, hrl., sem er stjórnarformaður Morgunblaðsins og í margháttuðum útréttingum fyrir Guðbjörgu Matthíasdóttur stærsta hluthafa Moggans og áhrifakonu á bak við tjöldin í flokknum. Gegnum mikil auðæfi er hún í hópi helstu flokkseigenda Sjálfstæðisflokksins og ræður því sem hún vill ráða þar á bæ.
Sjálfstæðisflokkurinn er nú með þrjá þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Miðað við síðustu skoðanakönnun sem mældi flokkinn með 19,7% fengi hann einungis 13 þingmenn en er með 19 núna. Einn þingmaður myndi tapast í hverju hinna 6 kjördæma landsins. Þannig mætti ætla að Sjálfstæðisflokkurinn fengi tvo þingmenn í hvoru kjördæmi Reykjavíkur eða samtals fjóra. Áslaug Arna hlýtur að bjóða sig fram í eitthvert af þessum fjórum sætum, vilji hún komast á þing. Takist það ætlunarverk hennar er líklegt að í fjórum efstu sætum flokksins yrðu þá Ólöf Nordal, Guðlaugur Þór Þórðarson, Áslaug Arna og Brynjar Níelsson. Þrjú þeirra eru lögfræðingar. Ef þetta gengi eftir næðu eftirtaldir þingmenn flokksins ekki kjöri á þing: Birgir Ármannsson, Illugi Gunnarsson og Sigríður Andersen. Tvö þeirra eru lögfræðingar.
Vandræðagangur í Reykjavík er samt ekki helsta vandamál Sjálfstæðisflokksins. Formaðurinn sjálfur er stærsta vandamálið. Bjarni Benediktsson hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum varðandi Tortólamál sem upp komu þegar Panamaskjölin voru afhjúpuð í apríl á þessu ári. Fyrir liggur að Bjarni hefur komið að margháttuðum viðskiptum í skattaskjólum sem munu verða honum til mikilla vandræða ef honum er ætlað að leiða Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Þá liggur fyrir að hann var í forsvari fyrir ýmiss fyrirtæki sem fengu gríðarlegar fjárhæðir afskrifaðar eða urðu gjaldþrota. Samtals er um að ræða afskriftir og töp upp á 120 milljarða króna á verðlagi ársins 2008 sem jafngildir um 170 milljörðum í dag.
Bjarni Benediktsson þarf ekki að gera ráð fyrir því að hann komist gegnum kosningabaráttu í haust án þess að þurfa að svara fyrir þessi vafasömu viðskipti og ýmsa vafninga og snúninga sem hann bar ábyrgð á fyrir sig og fjölskyldu sína. Margir áhrifamenn í flokknum telja að hann verði að víkja út af þessum málum; það sé einfaldlega allt of mikil áhætta fyrir flokkinn af fara með þennan vafasama farangur inn í kosningabaráttuna. Nú eru breyttir tímar og Google gleymir engu!
Vandi Sjálfstæðisflokksins er samt sá að það skortir hæfileikafólk til að taka við ef Bjarni víkur. Menn hafa leitað með logandi ljósi að mögulegum formanni flokksins en ekki orðið mikið ágengt. Reyndir stjórnmálamenn eru að hverfa af vettvangi flokksins eins og Einar Kristinn, Hanna Birna og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Aðrir í núverandi forystu þykja ekki koma til greina nema þá Ólöf Nordal varaformaður. Hún hefur átt við vanheilsu að stríða og því spurning hvort hún treystir sér til að taka á sig meiri skyldur fyrir flokkinn. Einhverjir hafa nefnt Elliða Vignisson, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, sem þykir harður í horn að taka og einkennist af dugnaði og miklum metnaði. Ekki koma menn auga á fleiri til að axla hið vandasama verkefni sem formennska í Sjálfstæðisflokknum er á tímum þegar fylgið er komið niður fyrir 20% samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum.
Þá virðist vera að ekki muni heldur ganga vel að stilla upp sigurstranglegum framboðslistum í kjördæmunum utan Reykjavíkur, nema þá helst í Norð-Austur þar sem gert er ráð fyrir óbreyttum lista. Haraldur Benediktsson bóndi sækist eftir efsta sæti flokksins í NV-kjördæmi. Hann er af mörgum talinn framsóknarmaður og ekki líklegur að ná mikilli hylli í kjördæminu nema hjá bændum og sveitafólki. Vandinn er sá að þorri kjósenda býr í þéttbýli, neytendur sem eiga ekki mikla samleið með bændum sem líta á neytendur sem bráð.
Í Suðurkjördæmi vilja margir fella Ragnheiði Elínu Árnadóttur úr efsta sæti listans en hún hefur verið næsta verklaus í ráðherratíð sinni. Sumir telja henni það til kosta því verklaus ráðherra gerir þá ekki mikið af sér sem er þakkarvert. Orðrómur hefur verið um að Elliði Vignisson stefni á forystusæti listans en það hefur ekki enn fengist staðfest. Fullvíst er talið að hann ætti létt með að fella Ragnheiði Elínu úr því sæti. Unnur Brá Konráðsdóttir ætlar sér stóran hlut og núverandi þingmenn, þeir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason, vilja halda áfram. Þeir eiga sinn stuðning þó margir gætu hugsað sér að skipta þeim út. Ýmiss nöfn hafa verið nefnd, sum langt frá því að geta talist til raunhæfra kosta. En óvissa er mikil um framvinduna hjá flokknum í Suðurkjördæmi. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú fjóra þingmenn en mun fækka um einn ef fylgið fellur niður í 20% eins og fyrr var nefnt.
Framvindan í SV-kjördæmi mun vitanlega mikið ráðast af því hvort Bjarni Benediktsson heldur velli sem formaður flokksins. Fyrir liggur að Ragnheiður Ríkharðsdóttir gefur ekki áfram kost á sér sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Það er áfall fyrir flokkinn og listann í kjördæminu. Elín Hirst hefur lýst yfir vilja til að taka 2. sætið sem Ragnheiður skipaði. Hermt er að Bjarni sætti sig ekki við það og hafi leitað að konu til að taka 2. sætið á listanum. Augu manna beinast nú að Höllu Tómasdóttur eftir óvæntan glæsiárangur í forsetakosningunum. Hún hefur fengið hvatningu frá flokksforystunni í kjördæminu en hún býr í Kópavogi.
Talið er að Halla gæti frískað aðeins upp á daufa ímynd flokksins í SV-kjördæmi. Jón Gunnarsson er talinn öruggur um sæti á listanum en óvíst þykir um afdrif annarra sem skipuðu listann í kosningunum 2013.
Mikil óvissa ríkir um forystu Sjálfstæðisflokksins eins og staðan er nú . Helmingslíkur eru taldar á því að til formannsskipta komi.
Ef Bjarni Benediktsson leiðir flokkinn í komandi kosningum, verður að gera ráð fyrir því að öll erfiðu málin verði uppi á borðunum og til umræðu í kosningabaráttunni. Það er engin óskastaða fyrir hann eða flokkinn. Forystukrísa er ríkjandi í Sjálfstæðisflokknum.