Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid leigja fjögurra herbergja íbúð sem þau festu nýlega kaup á á 265 þúsund krónur á mánuði. Á sama tíma er meðalleiguverð fyrir sambærilega íbúð 217 þúsund krónur.
Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir forsetahjónin harðlega í blaðinu og segir þau í „tryllingslegu gróðabraski“.
Umrædd íbúð, sem er 94 fermetrar, er á þriðju hæð í fjölbýlishúsi við Hringbraut. Hjónin keyptu íbúðina á 46 milljónir króna og var kaupsamningnum þinglýst í lok marsmánaðar.
Sólveig Anna gagnrýnir hjónin harðlega. „Mér finnst ótrúlegt að fólk sem er í mestri forréttindastöðu í samfélaginu geti ekki hamið sig í græðgi,“ segir hún.
Að því er fram kemur í frétt Stundarinnar fengu forsetahjónin fasteignasöluna sem sá um viðskiptin til að auglýsa íbúðina á opnum markaði og leita eftir því að fá markaðsverð.
Nánar er fjallað um málið í Stundinni.