„Það er kominn tími til að settur verði verðmiði á þau óefnislegu gæði sem í ósnortinni íslenskri náttúru felast.“
Nei, hægan, hægan, þú þarna sem hyggst af gamalli reynslu afgreiða svona ummæli með því að þetta hljóti að vera \"kommatuð\" eða að einhver rispaða platan í Landvernd sé heimildin sem vitnað er til að ofan.
Rólegur bara. Sá sem lét þessi ummæli falla er nebbnilega hvorki kommúnisti né á sérstökum mála hjá Landvernd. Þvert á móti kemur heimildin úr hópi hvítflibba. Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, lét þessi orð falla og það er til glæra í hans eigu sem ber þessa yfirskrift; Það er kominn tími til að settur verði verðmiði á þau óefnislegu gæði sem í ósnortinni íslenskri náttúru felast. Ummælin féllu þegar Grímur flutti erindi undir heitinu VÍÐERNI OG VÍRAR á fundi Landsnets.
Víðerni og vírar? Einmitt. Hvernig fer það tvennt saman, andlega eða hagfræðilega? Fjöldi Íslendinga metur hið ósnortna hér á landi sem mestu auðlegð búsetunnar. Við þolum veðrið, skammdegið og kuldann af því að við fáum kraft úr hinu ósnortna. Hagfræðilega liggur svo einnig fyrir að meginsegullinn sem dregur fólk hingað og skapar stórfelldan hagvöxt er óspillt náttúra, ekki víravirki í boði Landsvirkjunar og Landsnets. Í erindi Gríms kom fram að ferðaþjónusta keyri nú áfram nánast allan hagvöxt hér á landi.
Og nú langar mig að þrengja ávarpið og beina sérstaklega orðum mínum að sjálfum forsætisráðherra þjóðarinnar, því hann er jú ábyrgastur allra Íslendinga fyrir þeirri furðustefnu sem hér er rekin og situr líkt og fleygur djúpt í holdi landsmanna og veldur sársauka. Minn kæri vinur, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þú fékkst nýlega á kjammann þegar ungur námsmaður ávarpaði þig á alþjóðlegri ráðstefnu og sakaði þig um að vera 50 árum á eftir samtímanum. Þér að segja, SDG, þá finnst okkur fleiri Íslendingum það mótsagnarkennt að milli þess sem þú svo eitt dæmi sé tekið reynir að greiða götu Kínverja að koma á enn einu álverinu, við Hafursstaði, skulirðu flytja innblásnar ræður um mikilvægi umhverfisverndar, innblásinn af fegurð íslenskrar náttúru.
Andri Snær Magnason rithöfundur ræddi í síðasta Kviku-þætti Hringbrautar þau ólæknanlegu sár sem yrðu á helstu prýði landsins, hálendinu, ef sú helsúra Sprengisandslína verður lögð. Það leiðir aftur hugann að yfirskrift erindis. Víðerni og vírar.
SDG, okkar kæri. Þú ert alltaf að tala um peninga og hagvöxt og hann er vitaskuld aðeins í boði Framsóknarflokksins eins og þú nefnir við hvert tækifæri. En arðsemi fer stórvaxandi í ferðaþjónustu. Ekki í virkjanamálum eða stóriðju. Þvert á móti hafa verið gerðar lærðar erlendar skýrslur um ráðgátu lélegrar framlegðar í orkugeira okkar Íslendinga. Í máli Gríms Sæmundsen kom fram að í náttúruvernd og náttúrunýtingu sé sjálfbærni algjört meginhugtak. Orkustefnan hefur ekki reynst sjálfbær. Hún hefur aðallega orðið til þess að fyrrum skuldlaus orkufyrirtæki í almannaeign skulda nú mörg hundruð milljarða.
Það er sem sagt orðið tímabært að leiðsegja þér, kæri SDG. Þú átt barn í leikskóla, er það ekki? Ég líka. Í Hjallastefnunni skömmum við ekki börnin þegar þau gera eitthvað af sér, þá segjum við bara að þau hafi ruglast. Og nú hefur þú ruglast, kæri vinur. Þér að segja er ekki gott að ruglast og vera forsætisráðherra þjóðar. Það er vont að þú hafir ruglast því að það er vont fyrir okkur að sitja uppi með stjórnvöld sem eru 50 árum á eftir tímanum. Unga konan á alþjóðlegu ráðstefnunni skildi ekki af hverju þú eltir uppi mengun og ósjálfbærni á meðan allt bendir til að tækifæri lands og þjóðar liggi á þveröfugu sviði. Hún er ekki ein um að standa skilningssljó og forviða.
Þú veist líka er það ekki, okkar kæri SDG, álbrjálaður sem þú virðist vera, að Norðurál er rekið með stórhalla hvern einasta dag. Alcoa á Austurlandi færir allan hagnað sinn í skjól og greiðir ekki skatta. Straumsvík virðist rétt í þann mund að loka og kennir lægst launuðum um. Á sama tíma eru íbúar Reykjanesbæjar fullir skelfingu yfir loftmengun sem fylgja mun tveimur kísilverum sem munu samkvæmt þessari frétt stórskerða lífsgæði þeirra og hafa í þessum efnum ekki síst vaknað upp spurningar um hag skólabarna.
Stöðva þarf eyðileggingu lífsgæða í byggð og verja þarf hálendið. „Hálendi Íslands er einn mesti fjársjóður þjóðarinnar,“ sagði Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Af því að þú ert fremur ungur að lífárum, kæri SDG, og kannt eldra fólki betur tungutak samtímans langar mig að þýða orð Gríms yfir á mál sem þú örugglega skilur í von um góða afruglun.
Hættu að fokka í hálendinu!
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)