Fylgi kjósenda við núverandi ríkisstjórn hefur aldrei verið minna en nú ef marka má stóra könnun Gallup sem birt var í dag. Fylgið er komið niður í 35 prósent
.
Allir stjórnarflokkarnir tapa miklu. Sjálfstæðisflokkurinn missir þrjá þingmenn frá núverandi stöðu, Framsókn tapar 7 þingmönnum og Vinstri græn tapa hálfum þingflokki sínum og eru komin niður í 6.2 prósenta stuðning og fjóra þingmann, höfðu 8 þingmenn eftir kosningarnar 2021. Nú er svo komið að jafnvel Miðflokkurinn er stærri, með 7.8 prósenta fylgi, en hann var við það að þurrkast út í síðustu kosningum.
Flokkur forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttu, er nú sjöundi stærsti þingflokkur landsins. Er með öðrum orðum rúinn fylgi og trausti. Hvergi á Vesturlöndum myndi það lýðast að einhver flokksformaður fengi að leiða ríkisstjórn við þessar aðstæður. En Sjálfstæðismenn og Framsókn láta þetta yfir sig ganga sem er í raun fullkomlega óskiljanlegt.
Þegar ríkismiðillinn RÚV spyr Katrínu Jakobsdóttur um þessa niðurstöðu þá svarar hún því til að hún hafi litlar áhyggjur af þeim takmarkaða stuðning sem stjórnin nýtur og telur stjórn sína standa sterkum fótum.
Þetta ber vott um annað hvort mikinn valdhroka eða botnlausa heimsku. Víst er að þetta ber ekki vott um að ráðherrann lesi af skynsemi í aðstæður.
Þessi svör minna á upplifun stjórnar Iðnlánasjóðs sem var fyrirferðarmikill í Íslensku atvinnulífi á síðustu öld. Einn af stærri lántökum hjá sjóðnum var Slippstöðin á Akureyri sem barðist ávallt í bökkum og skuldaði mikið. Stjórn Iðnlánasjóðs heimsótti forráðamenn Slippstöðvarinnar á Akureyri sem mættu til fundar ásamt fyrsta þingmanni kjördæmisins. Eftir að Iðnlánasjóðsmenn höfðu gert norðanmönnum grein fyrir því að ekki væri unnt að lána félaginu meiri peninga enda væri það komið í þrot og yrði gjaldþrota að óbreyttu. Menn setti hljóðann við þetta þar til þingmaðurinn Halldór Blöndal tók til máls og sagði orðrétt: „ En slippurinn er nú samt traust fyrirtæki.”
Eins er farið um núverandi ríkisstjórn sem er rúin trausti og fylgi. Flokkur forsætisráðherra er kominn í 6.2 prósenta fylgi og hefur tapað hálfum þingflokki sínum á kjörtímabilinu og hinir stjórnarflokkarnir hafa einnig tapað miklu fylgi - en þá segir Katrín forsætisráðherra: „ Stjórnin stendur sterkum fótum.”
Gjaldþota slippur og ráðþrota ríkisstjórn standa vitanlega ekki sterkum fótum!
Rekstur Slippstöðvarinnar á Akureyri komst ekki í góðan farveg fyrr en Samherji keypti reksturinn. Ætli Samherji þurfi einnig að taka við taumunum í ríkisstjórninni?
- Ólafur Arnarson.