Formanni barnaheilla sagt að hætta

Ekki verður sagt annað en að ummæli Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings, formanns Barnaheilla, sem rætt var við í fréttaskýringa- og umræðuþættinum Kvikunni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vikunni hafi vakið gríðarlega athygli og mismunandi viðbrögð.

Einkum virðast skiptar skoðanir um þann kafla viðtalsins sem fjallaði um kvíða íslenskra barna og hvort foreldrar ættu að senda þau í skólann ef þeim líður illa.  Þáttastjórnandi Kvikunnar á Hringbraut sem frumsýnd er á mánudagskvöldum í viku hverri, spurði Kolbrúnu út í þetta, m.a. á grunni þess að fræðslustjórinn á Akureyri, Soffía Vagnsdóttir, hafði áður sagt eins og lesa má um hér að það væri mikill vandi hve mörg börn sætu heima á hverjum degi. Vakti athygli þegar fræðslustjórinn vitnaði til þess að í nágrannalöndum væru dæmi um að foreldrar væru beittir dagsektum ef börn þeirra sætu heima og færu ekki í skólann án gildrar skýringar.

Sjálf sagðist Kolbrún í Kvikuþættinum vera nokkuð ströng á þessu persónulega. Ef barn væri ekki með hita en bæri þó við veikindum, sem kynni að stafa af því að barninu liði illa og vildi ekki fara í skólann, gætu foreldrar gert börnum sínum bjarnargreiða með því að láta það eftir þeim að vera heima. Með því myndu líkur á frekari vanlíðan vegna einangrunar barna aukast. Þeim myndi líða verr með því að mæta ekki í skólann. Dæmi  væru um að foreldrar væru meðvirkir börnum sínum. Tímaskortur foreldra sjálfra hjálpaði ekki til í þessum efnum. Þá má minna á að það er skólaskylda á Íslandi. Lesa má frétt Hringbrautar upp úr viðtalinu hér.

Margir foreldrar hafa stigið fram, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og lýst létti sínum yfir að sálfræðingur og formaður Barnaheilla tali svo opinskátt og skýrt. Virðist efmarka má ummæli ýmiss konar á facebook sem foreldrar viti margir hverjir ekki hvaða mörk beri að virða í þessum efnum, hver réttur barnsins sé og hvort foreldrið hafi rétt á að andæfa barninu. Margir hafa sagst hafa séð nýtt og leiðandi ljós með þeim orðum Kolbrúnar að barn sem þjáist af vanlíðan eða kvíða sé líklegt til að auka á vandann með því að mæta ekki í skólann.

Á hinn bóginn hafa einnig stigið fram foreldrar og álitsgjafar sem jafnvel ganga svo langt að fara fram á afsögn Kolbrúnar sem formanns Barnaheilla.  Í kommentakerfi DV sem sagði frá frétt Hringbrautar og viðtalinu í Kvikunni segir kona að kvíði sé alls ekkert djók og þegar krakki sé neyddur í skólann í kvíðakasti  bjargi það engu. „Krakkinn finnur sér þá bara stað til að fela sig á í skólanum líklega. Ég var oft neydd í skólann í kvíðakasti þegar ég var lögð í einelti í Seljaskóla og ég var ekkert að fara að geta einbeitt mér í tíma og leið bara verr og verr. Ég átti bara að harka af mér. Skólayfirvöld gerðu ekkert til að hjálpa og endaði það með því að ég var pínd í skólann á morgnanna og í fyrstu frímínútum hljóp ég heim. Eftir nokkur skipti af þessu var ráðið að læsa hurðinni heima hjá mér svo ég kæmist ekki inn. Þá sat ég heilu dagana fyrir utan útidyrahurðina,“ skrifar kona í kommentakerfi DV.

Þorsteinn H. Gunnarsson almannatengill segir á sama vettvangi: „Ef rökstuddar ástæður fyrir kvíðanum eru fyrir hendi, t.d. einelti sem skólinn hefur ekki getað ráðið við á barnið ekki að þurfa að mæta í skóla fyrr en umhverfi þess hefur verið lagað. Börn eiga rétt á að líða vel í skóla. Það er grundvallaratriði.“

Það voru aftur á móti ekki þær aðstæður sem Kolbrún ræddi, því ekkert var minnst á einelti í þættinum sem kallar á allt önnur viðbrögð og umræðu.

Einn maður skrifar: „Samkvæmt eigin reynslu, er ég alveg hjartanlega sammála henni!“

En Guðbjörg Ragnarsdótir skrifar í kommentakerfi DV: „Nýjan formann takk - hvaða helvítis bull og kjaftæði er þetta.“

Sálfræðingur sem ekki tengist Kolbrúnu neitt segir þessa umræðu dæmi um hve viðkvæm hún sé. Ef einhver opni munninn og reyni að orða hlutina skýrt, jafnvel sem fagmanneskja, fari allt á hliðina.

Verið að skapa múgæsing

Vegna viðbragða t.d. í athugasemdakerfi dv.is við ummælum Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings  um að að börn ættu að mæta í skóla nema gild skýring liggi fyrir, leitaði Hringbraut viðbragða Kolbrúnar en hún segist ekki hafa íhugað að stíga til hliðar hjá Barnaheillum, enda spretti krafa um það vegna æsings og misskilnings. Hún nefnir að fyrisögnin ein og sér hjá DV bjóði upp á ákveðinn misskilning og virðist til þess fallin að skapa æsifrétt og múgæsing. Hvetur Kolbrún fólk sem vill tjá sig á málefnalegan hátt að byrja á því að hlusta á viðtalið á Hringbraut áður en það dregur ályktanir en léti ekki duga að lesa athugasemdir sem komnar eru.
\"Umræða okkar Björns [Þorlákssonar þáttastjórnanda] var um börn sem komin eru mjög neðarlega í mætingu vegna vanda s.s. kvíða og með því að halda sig heima er oft ekki verið að taka á málinu hvorki til skemmri né lengri tíma,\" segir Kolbrún í viðtali við Hringbraut.

Kolbrún hefur trú á að skólinn og foreldrar geti unnið saman í því að skapa þannig aðstæður í skólanum að barninu geti liði vel þar og notið skólagöngu. \"Lausnin er ekki að \"hætta að mæta\",\" bætir Kolbrún við.
„Við erum í þessum efnum að tala um börn sem oft er ekki vitað almennilega hvað hrjáir. Finna þarf út hvert vandamálið er ef barn vill án sýnilegrar ástæðu ekki mæta í skólann. Það þarf að leita leiða til að barn geti komið í skólann og líði vel, kjarni málsins er að það dugar ekki eitt og sér að hringja
ítrekað og tilkynna veikindi og fjarvist.“ Löng fjarvera frá skólanum er oft til að gera vandann enn verri og skrefin í skólann verða æ þyngri því lengra sem líður frá því að barnið hefur ekki mætt.\"
Kolbrún bendir á að hitamælir sé ágætis mælitæki til að kanna veikindi, því þegar hiti mælist eigi barn heldur alls ekki að fara í skólann. Foreldrar séu ábyrgir
fyrir sínum börnum, þekki börnin best. Foreldrar geti upp til hópa treyst eigin dómgreind en leiki vafi á sé mæling á hitastigi líkamans góð leið.

\"Hér er ekki verið að tala um að börn sem verða fyrir einelti eigi bara að pína til að mæta í skólann. Þetta var ekki umræða okkar Björns í viðtalinu. Ef einhver hefur fylgst með umræðunni um einelti ætti sá hinn sami að vita að ég hef á annan tug ára unnið að því leynt og ljóst og m.a. með útgáfu bókarinnar EKKI MEIR að kenna forvarnir og úrlausn eineltismála. Þau mál hafa átt hjarta mitt og hug árum saman. Sérhver skóli ber að hafa tiltæka viðbragðsáæltun og taka strax á málinu með faglegum hætti og hætta ekki fyrr en lausn er komin í málið með tilheyrandi eftirfylgni. En eins og þeir vita sem hlustu á viðtalið vorum við ekki að ræða þennan hóp.\"
Enn og aftur hnykkir Kolbrún á að mikilvægt sé að barn mæti vel í skólann sinn og sinni náminu. \"Sé það í vanlíðan tengdri skólanum þarf að taka á því með faglegum hætti og vil ég geta treyst að skólinn og foreldrar geti unnið saman að því. Hagsmunir barna skulu ávallt vera hafðir í fyrirrúmi og kvarti það verður að skoða málið strax með lausnarmiðaðri nálgun að leiðarljósi.\"

Hinn umtalaði þáttur, Kvikan, verður endursýndur í sjónvarpsdagskrá Hringbrautar um helgina. Þáttinn má einnig nálgast í heild á vef Hringbrautar hér.