Formaður Sjálfstæðisflokksins vísar Vinstri grænum á dyr

Fáum getur dulist lengur að það er bullandi ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar vegna útlendingamála og hvernig bregðast á við þeim vanda sem ásókn hælisleitenda hefur í för með sér. Vinstri grænir fylgja ekki vilja samstarfsflokkanna og Bjarni Benediktsson talaði hreint út við fréttamenn á Bessastöðum í gær. Hann fór ekki dult með það að við værum búin að missa tökin á þessum málum og ríkið réði ekki lengur við þann kostnað sem ásókn flóttamanna fylgir. Þingið hefur brugðist í því að styðja hugmyndir ráðherra um að koma skikk á málaflokkinn og leggja fram trúverðuga stefnu.

Með þessum skýru yfirlýsingum gerði hann tvennt: Hann sendi Vinstri grænum kuldalegar kveðjur, „sýndi þeim fingurinn“ eins og vefmiðillinn Mannlíf orðar það í dag. Jafnvel er hægt að gang svo langt að álykta að Bjarni hafi verið að vísa Vinstri grænum á dyr í ríkisstjórnarsamstarfinu sem er að kosta alla stjórnarflokkana mikið fylgistap og áþreifanlega óánægju innan flokkanna. Hitt sem Bjarni gerði með þessum yfirlýsingum var að þakka Jóni Gunnarssyni vel unnin störf og sýna honum virðingu. Ljóst er að Bjarna er óljúft að missa Jón Gunnarsson út úr ríkisstjórninni.

Vitað er að innan Sjálfstæðisflokksins er öflugur hópur sem er mjög ósáttur við þá breytingu sem var gerð á ríkisstjórninni. Menn telja að Jón hafi sinnt verkum sínum af dugnaði og eljusemi og verðskuldi alls ekki að þurfa að víkja. Þá svíður flokksmönnum að horfa upp á að Sjálfstæðisflokkurinn haldi formanni sósíalista í embætti forsætisráðherra þegar flokkur ráðherrans er rúinn trausti og fylgi samkvæmt öllum skoðanakönnunum allt frá síðasta hausti og kominn niður í 5.6 prósenta fylgi samkvæmt nýjustu könnun Gallups.

Spurt er hvers vegna í ósköpunum stærsti flokkurinn leiði ekki stjórnarsamstarf, frekar en langminnsti flokkurinn sem er jafnvel á góðri leið með að hverfa út af Alþingi?

Bent er á þann möguleika að Vinstri grænir hverfi nú úr ríkisstjórninni og Miðflokkurinn komi í staðinn. Eftir þá breytingu yrði fjöldi þingmanna stjórnarflokkanna 32 sem er meirihluti þótt tæpur sé. Varla þyrftu stjórnarflokkarnir að óttast vantraust því ekkert bendir til þess að núverandi stjórnarandstöðuflokkar kærðu sig um samstarf við Vinstri græna sem fengju það hlutverk að sitja í stjórnarandstöðu. Núverandi stjórnarandstaða hefur barist við VG síðustu 6 árin og munu ekki bindast þeim neinum böndum þegar þeir hyrfu úr ríkisstjórn og gætu sleikt sárin á Alþingi.

Breyting af þessu tagi gæti leitt til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, yrði utanríkisráðherra og Bergþór Ólason tæki við formennsku í þingnefnd og hefðu þeir því báðir ærinn starfa. Bjarni Benediktsson tæki við embætti forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún yrði þá væntanlega fjármálaráðherra í staðinn fyrir Bjarna. Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn fengju væntanlega einn ráðherra til viðbótar, hvor flokkur. Þá gæti svo farið að Jón Gunnarsson kæmi að nýju inn í ríkisstjórnina, eftir stutt hlé, og tæki við embætti sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra af Svandísi. Jón hefur mikinn áhuga á þeim málaflokkum enda fyrrum bóndi úr Miðfirðinum og áhugamaður um sjávarútveg. Enginn ágreiningur yrði væntanlega milli þessara flokka um útlendingamálin eða nauðsynlegar virkjanir.

Og Brynjar héldi áfram sem aðstoðarmaður!

- Ólafur Arnarson.