Forkastanleg ósvífni eða fáfræði

 

Í þættinum Þjóðbraut sem Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri, stýrir á sjónvarpstöðinni Hringbraut, lagði Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður ríka áherslu á að Sjálfstæðisflokkur framtíðarinnar krefðist æ minni ríkisafskipta.

Hafi einhver velkst í vafa um endurnýjaða nýfrjálshyggjustefnu flokksins (ef Unnur Brá talar sannarlega stefnu þingflokksins) eða furðað sig á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lítið lært af hruninu, sem flokkurinn er íslenskra stjórnmálasamtaka ábyrgastur fyrir, komu svörin við þeirri ráðgátu ágætlega fram í sjónvarpsþættinum í gærkvöld með ummælum þingmannsins.

Eiginlega lýsir það annað hvort forkastanlegri ósvífni eða dapurlegri fáfræði og skilningsskorti að heyra áhrifakonu innan Flokksins tala með þessum hætti svona í ljósi sögunnar. Hver var það annað en „Stóra mamma“, hið alræmda ríkisvald sem Unni Brá er svo illa við, sem bjargaði Íslendingum frá þeim örlögum að fara aftur til lífsgæða 19. aldarinnar, þegar allt hrundi 6. október árið 2008? Var það ekki ríkið og samstillt átak borgaranna undir hatti þess sem endurreisti landið okkar sem hafði fallið ekki vegna snillinganna í einkarekstrinum hér á landi heldur vegna græðgisskúrkanna í einkarekstrinum sem léku sér með fjöregg þjóðarinnar og almannahagsmuni eftir að ríkisbankarnir höfðu verið einkavæddir? Sú þjóð sem fór hvað verst út úr hruninu er samt enn með ríkisstjórn sem talar ríkisvaldið niður. Rætt er um sjálfa björgunarsveitina eins og illan anda.

Unnur Brá ætti e.t.v. að velta því fyrir sér hvers vegna stjórnmálamenn líkt og Bernie Sanders og Jeremy Corbyn hafa notið gríðarlegra vinsælda í þeim tveimur vestrænu ríkjum, Bretlandi og Bandaríkjunum, sem fóru hvað verst út úr nýfrjálshyggju Reagan- og Thatcherismans. Í stuttu máli sagt njóta þeir vinsælda vegna þess að þeir tala fyrir sterku ríkisvaldi og almannahagsmunum æðri auðhyggju óhefts rányrkjukapítalisma. Corbyn og Sanders átta sig á lykilhlutverki ríkisins í að hamla gegn ójöfnuði sem nú er í hæstu hæðum og hefur í raun eyðilagt virkt lýðræði. Haldi einhver að sá vandi sé bundinn við útlönd má benda á að nýjar tölur Credit Suisse um ójöfnuð sýna að 17.000 Íslendingar eiga nú eignir fyrir meira en 100 milljónir króna. Það er mikill fjöldi, þeir fylla ríkasta 1% alheimsins og þetta eina prósent á 50% allra eigna í heiminum. Ríkisútvarpið greindi frá þessari skýrslu í gær. Það er náttúrlega vont fyrir Unni Brá og málstað hennar að vera með ríkisstofnun eins og Ríkisútvarpið sem setur hlutina svona í samhengi og þess vegna er kannski best að leggja Ríkisútvarpið niður.

Unnur Brá ræddi í viðtalinu á Þjóðbraut í gær einstaklingshyggju ungs fólks í kringum sig. Hún ályktaði að vegna þeirrar einstaklingshyggju sem væri að finna í ungu fólki á Íslandi ættu stjórnmálamenn að koma á móts við eðli ungdómsins og þarfirnar. Hún gleymir því að það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Hún gleymir því líka að á sama tíma og sjálfstæðismenn predika frelsi og einkaframtak en tala af kappi niður ríkisvaldið stofnar flokkssystir Unnar, ráðherra, furðulegt ríkisapparat sem helst virðist hafa það hlutverk að fylgjast með tveimur öðrum stofnunum. Maður er ráðinn sem forstjóri án auglýsingar, maður sem bókað hafði komu sína á Landsfund fllokksins samkvæmt fréttum fjölmiðla. Hann hefur nú hætt við þátttöku á landsfundinum eftir að hann var ráðinn. Það þykir duga til að koma í veg fyrir spillingarumræðu, gagnsæið er nú ekki meira en það. Forstjórinn fær 2 millur í mánaðarlaun. Fyrir skemmstu greindi Fréttablaðið frá því að fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði fengið 70 milljónir króna í þóknun vegna ráðgjafarstarfa, allt greitt beint úr almannasjóðum. Sú upphæð fer ekki á meðan í að styðja við bakið á þeim sem minna mega sín, ekki fremur en þau hundruð milljóna sem nýja ríkisstofnunin sem Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur stofnað fara ekki í annað á meðan. Á sama tíma lepur fjöldi fólks hér á landi, öryrkjar, aldraðir og sjúkir dauðann úr skel efnahagslega. Án ríkisaðstoðar væri sá hluti landsmanna sem hefur minnstar bjargir hreinlega dauður úr hungri og kulda.

Því gleymir Unnur Brá kannski þegar hún talar niður ríkisvaldið en þiggur um leið allar tekjur sínar frá hinu sama vonda ríki. Dæmi eru um að svokallaðir hægrimenn tali niður ríkisvaldið alla ævina en hafi á sama tíma hvern einasta dag lífs síns sogið ríkisspenann af mikilli áfergju, fengið hjá ríkinu efnahagslegt bensín til að hamast á eigin launagreiðanda. Þar má nefna helsta hugmyndafræðing sjálfstæðismanna, Hannes Hólmstein Gissurarson, hinn sama hugmyndafræðing og sennilega ber hugmyndafræðilega mesta ábyrgð á efnahagshruninu hér ásamt Davíð sem nú starfar í þágu kvótaeigenda.

Í fæstum tilvikum fara orð og athafnir saman hjá þeim sem hamast helst gegn ríkisvaldinu. Í umræðu um traust og trúverðugleika ættu Unnur Brá og félagar í Sjálfstæðisflokknum kannski að velta því fyrir sér og ræða opinskátt á landsfundinum sínum eftir nokkra daga.  Ábyrgari stefna, traust og trúverðugleiki skiptir samfélagið mun meira máli en hver verður varaformaður flokksins. En á sama tíma og hugmyndafræðin er eins og Unnur Brá lýsir henni væri hæpað að reikna með umbótum.