„foreldrar syrgja 19 ára dóttur sem hvílir í líkkistu“

Árið 2018 voru 39 lyfjatengd andlát. Það sem af er árinu 2019 eru 23 dauðsföll til skoðunar hjá Embætti landlæknis. Flestir í þessum hópi voru ungt fólk. En hver ber ábyrgð? Svarið er í raun einfalt.

Fjölgun á lyfjatengdum andlátum ungmenna af völdum ópíóða má að stórum hluta rekja aftur til ársins 2006. Um það leyti hófu íslensk fangelsismálayfirvöld baráttu sína gegn vægari vímuefnum í fangelsum landsins. Á þessum tíma var neysla mest á kannabisefnum. Baráttan skilaði sér, kannabisefni hurfu að mestu úr fangelsinu. Í staðinn smygluðu fangarnir efnum sem erfiðara er að finna í þvagi. Harðari efni tóku yfir, fangar notuðu læknadóp, meðal annars morfínskyld lyf, eins og contalgin og fentanýl. Þá hefur misnotkun á Xanax og flogaveikislyfinu Rivotril einnig ágerst. Árið 2006 var Valtýr Sigurðsson yfir fangelsismálum á Íslandi og fátt hefur breyst síðan þá, nema að ástandið hefur versnað.

Þá komum við að afleiðingum refsistefnunnar á Litla-Hrauni. Fangar ánetjast læknadópi, Contalgin og fentanýli ásamt fleiri efnum inni á Litla-Hrauni. Höldum því síðan til haga að fíkn í morfín er sterkari en fíkn í kannabis, amfetamín eða kókaín. Meðferðarúrræði og sálfræðiþjónusta eru af skornum skammti á Litla-Hrauni og oft heldur neysla fangans á læknadópi áfram eftir að fanginn fær loks frelsi.

Þá kynnir hann vinum sínum fyrir morfíninu, þeir vinir gera slíkt hið sama, nýir neytendur bætast við og nokkrum árum síðar er Contalgin og Fentanýl orðið efni sem er ekki lengur bundið við Litla-Hraun eða undirheimana, dauðadópið hefur farið úr djúpi undirheimana, uppá yfirborðið og dreift sér yngri neytenda. Skyndilega eru unglingar frá „hefðbundnum“ fjölskyldum að fikta við læknadóp og deyja. Þetta ferli, andlátin síðustu ár, má því að stærstum hluta rekja beint til yfirvalda. Í stað þess að horfa til Norðurlanda eða hlusta á Afstöðu félags fanga er núllstefnunni gagnvart vægum vímuefnum haldið áfram sem hefur leitt til faraldurs á læknadópi í samfélaginu.

Á sama tíma og við höldum þjóðarátök til að reyna sporna við andlátum ungmenna eru yfirvöld að vinna gegn samfélaginu með refsistefnu sinni. Það er stundum talað um að stríðið sé tapað þegar kemur að því að útrýma fíkniefnum. Það stríð vinnst sjálfsagt aldrei. Stríðið mun alltaf tapast nema stjórnvöld geri sér grein fyrir afleiðingum refsistefnunnar.

Sú stefna að ætla að útrýma vægum vímuefnum í fangelsum leiðir til neyslu á harðari efnum sem síðan verður að faraldri í samfélaginu. Það hefur nú þegar gerst þrátt fyrir varnaðarorð. Það er kominn tími á nýja nálgun. Hugsa hlutina upp á nýtt. Af hverju er þessari stefnu viðhaldið þrátt fyrir óbætanlegan fórnarkostnað? Því þessi stefna leiðir til óstjórnar í fangelsum landsins, ofbeldis og andláta. Það sama hefur síðan verið að gerast utan veggja fangelsisins. Nýir og nýir neytendur bætast við. Og þá gerist þetta: Foreldrar syrgja 19 ára dóttur sína sem hvílir ofan í líkkistu, vegna þess að hún tók of stóran skammt, allt í boði refsistefnu yfirvalda.  

Kristjón Kormákur Guðjónsson