Andrés Magnússon, Eiríkur Bergmann og Þóra Kristín Ásgeirsdóttirvoru gestir Silfursins á RÚV í dag þar sem þau fóru yfir atburði vikunnar og þá sérstaklega aðgerðir lögreglu og sérsveitar sem leiddu til þess að hryðjuverkaárás var afstýrt.
„Þetta var undarlegur blaðamannafundur og undarleg tímasetning,“ sagði Þóra Kristín og að fólki hefði eftir blaðamannafundinn verið boðið að geta í eyðurnar og að mögulega hefði verið betra að bíða með hann.
„Það er líka mikill ábyrgðarhluti að ala á ótta,“ sagði hún og þá tengingu sem hafi verið lögð fram við hægri öfgahópa og varaði við því að það sé ekki vitað hvert slíkur ótti getur leitt okkur.
Hún sagði að ef hér myndu slík völd komast til valda, eins og er að gerast í nágrannalöndunum, þá viljum við ekki endilega að lögreglan hafi víðtækar njósnaheimildir.
Andrés Magnússon tók þá til máls og sagði að blaðamannafundurinn hefði eflaust verið haldinn til að draga úr ótta en dró úr efa, eins og Þóra Kristín, að hann hefði gert það. Þá velti hann því fram að lögreglan hafi aðeins fengið viku í gæsluvarðhald yfir öðrum manninum því að hún sé mögulega ekki með nóg í höndunum.
Þau voru sammála um að blaðamannafundur lögreglunnar hafi verið ótímabær og að það væri ábyrgðarhluti lögreglu að stýra umræðu á rétta leið.
„Það er ábyrgðarhluti að láta umræðu lifa i samfélaginu sem reynist síðar vera alröng og lögregan hafi einhverjar aðrar upplýsingar og aðra ætlun en sú umræða sem hefur verið,“ sagði Eiríkur. Hann sagði ef að umræðan væri á réttum stað værum við í nýjum veruleika.
„Sem við höfum ekki séð áður í þessu þjóðfélagi,“ sagði Eiríkur og að við þyrftum að geta tekist á við hann.
„Jafnvel ótrúlegir vitleysingar geta gert ótrúlegan skaða,“ sagði Andrés og að lögreglan þyrfti, sama hverjar aðstæðurnar eru í raun, að fara með gát. Hann sagði að sama hvernig málið þróast þá þurfi að ræða málið frekar, viðbúnaðarstig sem þarf og hvort að lögreglan þurfi frekari heimildir en að á sama tíma þyrfti örugga tilsjón yfir lögreglunni.
Þóra, Eiríkur og Andrés ræddu einnig ríkisstjórnina og framtíð hennar, verkalýðshreyfinguna, bresk stjórnmál og mál blaðamannanna fjögurra og Samherja og annað.
Hægt er að horfa á þáttinn hér á vef RÚV.