Þátturinn vinsæli, Fólk með Sirrý fór aftur í loftið á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld eftir nokkurra mánaða frí. Fyrsti þátturinn fjallaði um málefni sem kemur öllum við; svefninn og svefnleysið sem hrjáir svo marga.
Í þættinum, sem sjá má nú hér á vef stöðvarinnar, heyrum við reynslusögur og ráð frá sérfræðingum, en kona sem kemur fram í þættinum og hefur árum saman átt við svefnvanda að stríða segir meðal annars frá því hvernig er að lifa við að sofa aldrei nema 3 til 5 tíma á nóttu.
Önnur kona segir frá því að hún hætti að geta sofið vegna álags og keyrði sig að lokum í þrot. Hún fékk bót meina sinna og sefur nú eins og engill 8 tíma á nóttu. Hvernig fór hún að? Það kemur fram í þættinum.
Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir í Heilsuborg, segir að það sé vel hægt að fá góðan svefn þótt fólk vakni nokkrum sinnum á nóttu ef það lætur stressið ekki ná tökum á sér. Eftir fertugt sé eðlilegt að vakna nokkrum sinnum á nóttu. Í þættinum tekur hún upp hanskann fyrir læknastéttina. Læknar séu oft gagnrýndir fyrir það að spyrja skjólstæðinga sína ekki út í svefnvanda og vera of gjarnir á að ávísa svefnlyfjum. Erla Gerður vitnaði í reynslu sína af því að vera heilsugæslulæknir í Salastöðinni; skjólstæðingar hennar þar báðu oft og einatt rafrænt um áframhaldandi ávísun svefnlyfja. Erla Gerður sagðist hafa haft tækifæri til að hringja í sjúklingana og bjóða þeim að koma í viðtal og ræða um svefnvandann og finna út hvort það væri kannski hægt að taka á vandanum með öðrum hætti en lyfjum. En því var alls ekki alltaf vel tekið. Margir vildu bara fá sín svefnlyf umræðulaust og kærðu sig ekki um slík viðtöl.
Í þættinum er víða komið við. Erla Björnsdóttir doktor í sálfræði segir að konur þurfi almennt meiri svefn en karlmenn. Konur þjást mjög oft af svefnleysi en eiga auðveldara með að tala um vandann og leita oftar aðstoðar sálfræðinga á námskeiðum um svefn og svefnvanda en karlar.
Margir sem hafa átt erfitt með svefn tengja svefnherbergið sitt við andvökunætur og streitu og byrja að kvíða fyrir um leið og þeir leggjast út af. Þetta fólk þarf að endurskoða hug sinn. Hugrænni atferlismeðferð er mikið beitt í meðferð við svefnvanda. Sérfræðingarnir ráðleggja líka fólki að gera ekkert í svefnherberginu annað en að sofa og stunda kynlíf. Bækur, tölvur, sjónvarp, rafmagnsklukkur, símar og önnur raftæki eiga ekki heima í svefnherbergjum fólks með svefnvanda.
Nýja þáttaröðin með Fólk með Sirrý verður frumsýnd á næstu mánuðum á miðvikudögum klukkan 20:00 og endursýnd sama kvöld klukkan 22:00, en þættirnir eru líka í endursýningu um helgar og sjáanlegir sem fyrr segir á vef stöðvarinnar eins og allir aðrir þættir hennar.