Margir eiga sér þann draum að eiga sumarhús og njóta úti í náttúrunni. Sveitaloftið og náttúran dregur að og allt verður einhvern veginn afslappaðra. Hjónin Brynja Dadda Sverrisdóttir og Hafþór Bjarnason eru ein af þeim sem létu draum sinn rætast árið 2014 þegar þau keyptu lóð fyrir sumarhús í Norðurnesi í Kjós. Þau hönnuðu og smíðuðu sitt eigið sumarhús með aðstoð góðra manna og tveimur árum síðar, árið 2016 var húsið risið. Í fyrrasumar heimsótti Sjöfn Þórðar í þættinum Matur og Heimili, Brynju Döddu og Hafþór í Kjósina í sumarhúsið þeirra sem ber nafnið Móberg. Sjöfn fékk þar að skyggnast inn í sumarhúsið og fylgjast með öllu því sem þau höfðu tekið sér fyrir hendur í Móberginu, uppbyggingunni, ræktuninni og sköpuninni. Nú rúmu ári síðar er sumarhúsið, Móbergið, orðið heimili þeirra en þau ákváðu að selja eign sína á höfuðborgarasvæðinu og flytja alfarið í sveitina, í Móbergið, þar sem þeim líður best og huga mun meira að sjálfbærni og lífrænni ræktun en nokkru sinni fyrr.
„Það gerðist bara þannig að við vorum farin að vera alltaf fleiri og fleiri daga af því hér líður okkur best. Við vorum í raun ekki sátt við þessar flækjur sem fólk kemur sér í með tækni og þanskipulagi. Okkur fannst við þurfa að einfalda lífið og losa okkur við óþarfa dót og tilbúnar þarfir. En auðvitað er þetta bara það sem hentar okkur, það verður hver að finna sitt,“segir Brynja sem er afar sátt með ákvörðun þeirra að flytja alfarið í sveitina.
Pítsaofninn er best leyndarmálið í Móbergi og lætur engan ósnortinn./Ljósmyndir SÞ
Þeim hjónum er margt til lista lagt og hafa listrænir hæfileikar þeirra fengið að njóta sín í Kjósinni og þau hafa búið sér einstaklega hlýlegt og fallegt heimili í sveitinni. Þau eru aldrei verkefnalaus og unna hag sínum vel. Þau hafa komið sér upp matjurtargarði, kartöflugarði, litlu gróðurhúsi, smíðaverkstæði og reykkofa svo fátt eitt sé nefnt. En það má segja að eitt best geymda leyndarmálið þeirra sé pítsaofninn sem Hafþór hefur hlaðið og útbúið með glæsilegum hætti. „Barnabörnin sækja mikið hingað til okkar og eitt það skemmtilegasta og besta sem þau fá að gera er að baka eldbakaðar pítsur,“segir Brynja sem leggur mikið upp úr því að barnabörnin fái öll að taka þátt, eins og matargerðinni og bakstri. „Ég hef alltaf haft gaman af matargerð og bakstri en núna hef ég verið að grúska svolítið í gömlum matarhefðum, mig langar alltaf að gera meira frá grunni og að sjálfsögðu að nýta náttúruna betur. Svo ræktum við grænmeti og kartöflur.“
Hafþór nýtur sín vel við pítsubaksturinn og veit fátt skemmtilegra en að gleðja barnabörnin./Ljósmyndir SÞ
Við fáum að fylgjast með hjónunum í faðmi fjölskyldunnar þar sem barnabörnin fá að taka þátt og kynnast ræktuninni og því sem náttúruna gefur í sveitinni. Missið ekki af áhugaverðri og gefandi heimsókn til þeirra hjóna í sveitina þar sem heimilislífið blómstrar í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Gómsætar pítsurnar sem koma úr þessum stórfenlega pítsaofni./Ljósmyndir SÞ.