Icelandair undirbýr hlutafjárútboð á næstunni að því gefnu að fyrst verði samið við mikilvægustu hópa starfsmanna innan félagsins.
Þetta er eðlileg nálgun af hálfu félagsins enda má öllum vera ljóst að engum fjárfesti kæmi til hugar að kaupa ný hlutabréf í Icelandair nema búið væri að semja við flugstéttirnar til langs tíma. Semja þarf um lækkun bæði launa og hlunninda.
Fyrir liggur að núverandi kjarasamningar sliga félagið og gera rekstur þess allt of þungan og ósamkeppnisfæran.
Félagið hefur burði til að ná sér fljótt á strik takist að semja um verulega lækkun launakostnaðar, einkum flugstjóra og flugmanna. Þegar það bætist við almenna hagræðingu og kostnaðaraðhald ættu fjárfestar að sjá tækifæri í framtíð félagsins. Þá má vænta þess að takist að fá stuðning fjárfesta upp á tugi milljarða króna. Með því yrði framtíð Icelandair tryggð.
Takist ekki að semja um verulega lækkun starfskjara flugstéttanna með samningum til langs tíma, fæst ekki nýtt hlutafé.
Vill nokkur hugsa um hvað tæki þá við?
Stéttarfélag flugmanna hefur brugðist illa við þessu og birt yfirlýsingu í fjölmiðlum um að hér sé um ósanngjarna kröfu að ræða enda séu laun þeirra alls ekki svo há.
Skoðum staðreyndir. Frjáls verslun birtir árlega upplýsingar um skattlagðar tekjur ýmissa hópa. Í fyrrasumar birti blaðið upplýsingar um tekjur á mánuði árið 2018.
Væntanlega hafa tekjur hækkað nokkuð síðan þá.
Tekjuhæsti flugstjórinn hjá Icelandair var með 3,1 milljón króna á mánuði árið 2018. Tveir aðrir sem blaðið birti upplýsingar um höfðu yfir 3 milljónir króna og svo komu nokkrir flugstjórar Icelandair með á bilinu 2,6 til 2,9 milljónir króna í laun á mánuði samkvæmt úrtaki blaðsins.
Vert er að hafa í huga að hér eru ekki talin með hlunnindi flugstéttanna sem eru skattfrjáls.
Það er ekki auðvelt fyrir flugfélag að standa undir starfskjörum af þessu tagi.
Síst af öllu á tímum eins og nú eru.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga nú stærstan hluta hlutafjár í Icelandair. Þeir eru einnig líklegastir til að fjárfesta áfram í félaginu að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
Til samanburðar við launakjör flugstjóra má geta þess að árið 2018 námu mánaðartekjur forstjóra þriggja stærstu íslensku lífeyrissjóðanna 2,3 til 2,6 milljónum króna samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Þeir njóta ekki neinna skattfrjálsra hlunninda að auki eins og flugfólkið.
Óhjákvæmilegt er að flugmenn komi nú niður á jörðina þegar samið verður um starfskjör.