Flóttinn mikli úr þinginu

Fjölmiðlar hafa skýrt frá því að nú þegar hafi 16 þingmenn tilkynnt um að þeir ætli að hætta þingmennsku í haust. Um er að ræða fjórða hvern núverandi þingmann. Sumir þeirra hætta eftir langan og farsælan feril og líta þannig á að nóg sé að gert. Það gildir um Kristján Möller, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Ögmund Jónasson, Einar Kristinn Jónsson og Katrínu Júlíusdóttur. Þau hafa öll verið virtir og öflugir þingmenn og fjögur þeirra ráðherrar. Sigrún Magnúsdóttir hættir fyrir aldurs sakir. Helgi Hrafn Gunnarsson pírati ætlar að hætta öllum að óvörum en hann hefur notið vinsælda meðal almennings. 

Hinir 9 þingmennirnir sem ætla að hætta, gera sér flestir ljóst að þeir kæmust ýmisst ekki gegnum prófkjör í flokkum sínum eða næðu ekki kjöri í kosningunum. Þannig benda allar skoðanakannanir til þess að Björt framtíð komi ekki mönnum á þing og því velja þrír þingmenn þeirra að draga sig í hlé. Það eru þau Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall. Framsókn hefur nú 19 þingmenn. Allar skoðanakannanir gera ráð fyrir að þeim fækki mjög mikið, um 10 eða fleiri þingmenn. Í því ljósi kemur ekki á óvart að nokkrir þeirra dragi sig í hlé eins og Vigdís Hauksdóttir, Frosti Sigurjónsson, Haraldur Einarsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Illugi Gunnarsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir hætta af augljósum ástæðum.

Til viðbótar við þessa 16 þingmenn er viðbúið að margir aðrir nái ekki markmiðum sínum um að halda áfram þingmennsku. Bæði gætu þau fallið í prófkjörum flokka sinna eða þá í kosningunum sjálfum. Verði úrslit kosninga í nokkru samræmi við skoðankannanir undanfarinna mánaða, þá munu verða miklar breytingar í þinginu umfram það sem áður er nefnt.

Talsverð óvissa ríkir nú um framtíð eftirtaldra þingmanna af framangreindum ástæðum:

Af Framsóknarþingmönnum er hér um að ræða Þorstein Sæmundsson, Karl Garðarsson, Elsu Láru Arnardsóttur, Þórunni Egilsdóttur, Willum Þór Þórsson, Eygló Harðardóttur, Líneik Sævarsdóttur og Pál Jóhann Pálsson. Þrír þingmenn Bjartrar framtíðar fylla þennan flokk: Björt Óladóttir, Óttar Proppé og Páll Valur Björnsson. Þær Oddný Harðardóttir og Ólína Þorvarðardóttir frá Samfylkingu eru einnig í fallhættu. Loks eru þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks ekki öruggir um að komast gegnum prófkjör og kosningar. Það eru Ásmundur Friðriksson, Elín Hirst og Sigríður Andersen.

Ljóst er að allmargir úr þessum hópi munu ekki snúa til þings að loknum kosningum. Hvort þeir verða 16 eða færri skal ósagt látið. En víst er að framundan eru meiri breytingar í þingliði á Alþingi Íslendinga en áður hefur sést. Allt að helmingsendurnýjun. 

Kjósendur hljóta að vænta þess að þeir 25 til 35 nýju þingmenn sem kjörnir verða í lok október hafi margt gott fram að færa og leggi sitt af mörkum til að lyfta störfum Alþingis á hærra plan. Það er sannarlega kominn tími til þess.