Flóttinn frá reykjavík er hafinn!

Akureyri hefur hefur enn bæst liðsauki. Menningarfélag Akureyrar hefur ráðið Þuríði Helgu Kristjánsdóttur í starf framkvæmdastjóra en hún hefur starfað sem mannauðs- og verkefnastjóri hjá Norræna húsinu undanfarin átta ár.

Þuríður Helga bætist í hóp margra brottfluttra Reykvíkinga sem þyrpst hafa norður síðustu misseri og starfa nú að listum og menningu. Þar má svo tveir séu nefndir geta Þorvaldar í Todmobile og Jóns Páls Eyjólfssonar leikara en báðir gegna nú æðstu stöðum í menningarmálum bæjarins. Einnig mætti nefna að dæmi eru um að heimsþekkt kvikmyndatónskáld flytji frá Hollywood til Akureyrar, til er eitt nýlegt dæmi, Atli Örvarsson.

Í ljósi þess að þróunin síðustu áratugi var órofa sú að höfuðborgarsvæðið sogaði til sín atgervi utan af landi má segja að hér hafi orðið söguleg tíðindi. Og þeim er hvergi nærri lokið.

Akureyri reyndi um tíma að laða til sín fleiri íbúa með því að bera sig saman við höfuðborgarsvæðið. Ef marka má samtöl sem sá sem hér skrifar hefur átt við nýja íbúa (og þá ekki síst þá sem koma norður af höfuðborgarsvæðinu) er niðurstaðan að það hafi verið hæpin stefna. Auk praktískra eiginleika svo sem mun lægra fasteignaverðs hér en fyrir norðan, tímasparnaðar sem felst í því að stutt er milli staða, öryggis og friðar fyrir fjölskyldufólk umfram það sem gerist víða í borginni auk fleiri þátta, virðist ein helsta ástæða þess að listafólk tekur slaginn og flytur norður einmitt sú að Akureyri sé allt öðruvísi Reykjavík. Andrúmsloftið sé annað. Umhverfið sé annað. Hér er hægt að labba beint úr miðbænum upp á fjall ef manni dettur það í hug, skíðasvæðið er nánast í göngufæri. Útsýnið, sjórinn, takturinn, sveitirnar í kring, blæbrigðin eru önnur en í Reykjavík. Ekki betri, bara önnur. Og þannig gæti Akureyri blómgast sem borg. Ekki sem samanburðarbær við Reykjavík heldur sem annar valkostur fyrir fólk sem vill meiri tíma og annað tempó, eini valkosturinn við Reykjavík þar sem ókunnugleiki er þó norm meðal íbúa – en það er eitt af því sem aðgreinir borgarmenningu frá bæjum.

Það skyldi þó ekki vera að nýtt og spennand skeið sé í vændum. Við sjáum það á viðhorfskönnunum ungmenna um allt land, að þau horfa ekki síður til útlanda en hér innanlands þegar þau eru spurð um fyrirhugaða framtíðarbúsetu. Höfuðborgin er ekki lengur alfa og ómega alls þegar kemur að tækifærum. Kannski munu ungmenni haka eins við Akureyri og Reykjavík eftir nokkur ár. Eða New York.

Það er landinu öllu til góða að dreifa tækifærunum og einmitt stuðla að ólíkum borgum innanlands. Slagsíða er vond. Flóttinn frá Reykjavík gæti verið upptaktur að nýju upphafi.

Og það verður að segjast eins og er að stærsta skrefið í að gera bæ að borg hér fyrir norðan var þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður. Fjöldinn allur af nýju fólki fékk þá störf, margir af erlendu bergi brotnir, því þá voru Reykvíkingar almennt ekki enn búnir að ná þeim þroska að áætla að hér væri hægt að búa eins og umræðan um Fiskistofu hefur verið glöggt dæmi um.

Listamenn og menningarforkólfar brjóta ölduna. Það er gömul saga og ný. Þeir sjá að bragur bæjarins hefur breyst og að auki er túrismi orðin blómleg atvinnugrein á Akureyri allan ársins hring sem þýðir að staðir spretta upp. Hér er nú hægt að hanga einn og ósýnilegur yfir latte ef hugur stendur til. Með enga aðra en útlenska ferðamenn í kring. Af sem áður var þegar aðeins var hægt að drekka kaffi eða fá sér franskar á Bautanum eða Teríunni. Og alltaf sömu andlitin í kring.

Lifi fjölbreytileikinn. Flóttinn frá Reykjavík getur vel orðið Reykjavík sjálfri til góðs. Hann gæti skapað nýtt samhengi og ballanserað óballanseraða byggðaumræðu og -þróun.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar (Akureyrings) birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)