Flottasta pallapartýið í laxatungu þar sem bleiki liturinn og gleðin var við völd

Mikið var um að vera nýliðna helgi og meðal annars var haldin bæjarhátíð Mosfellsbæjar „Í túninu heima“. Bæjarbúar taka fullan þátt og leggja sig fram á metnaðarfullan hátt við að skreyta húsin sín, standa fyrir hver kyns viðburðum og halda að jafnaði götugrill og pallapartý. Berglind Hreiðarsdóttir matar- og kökubloggari með meiru, hefur sýnd að henni er margt til lista lagt. Hún stóð fyrir einu flottasta pallapartýinu í bleika hverfinu ásamt nágrönnum sínum þar sem metnaðurinn var framúrskarandi og hugsað fyrir hverju smáatriði með glæsilegri útkomu.

\"\"

„Við erum í bleika hverfinu í Mosó og það er svo gaman að taka þátt, skreyta og hafa gaman. Við erum svo heppin að eiga frábæra nágranna og er stór hluti af þeim orðnir góðir vinir okkar og við hittumst reglulega og gerum eitt og annað sniðugt saman. Það er ákveðin dagskrá í bænum þessa helgi og fullt skemmtilegt hægt að gera og skoða. Götugrill er ávallt haldið á laugardögum og stórtónleikar á miðbæjartorginu sem enda í flugeldasýningu. Á föstudagskvöldinu er brekkusöngur í Álafosskvos og í ár héldum við bleikt pallapartý með vinum okkar hér úr hverfinu, sem telja í kringum 20 manns auk barna svo þetta var ágætishópur. Við vorum búin að taka okkur saman hérna fjórar raðhúsalengjur í röð og keyptum öll saman ljóskastara og settum bleikar filmur á svo gatan okkar er ansi bleik og þetta mjög skemmtileg leið til þess að skreyta. Á laugardagskvöldinu eru úrslit tilkynnt um best skreyttu göturnar, hverfin, húsin og þess háttar og vann Laxatungan sem best skreytta gatan í bleika hverfinu í ár sem er skemmtilegt,“ sagði Berglind með bros á vör.

\"\"

Þú stóðst einnig fyrir glæsilegu pallapartýi í Laxatungunni ásamt nágrönnunum þar sem bleiki lturinn var alls ráðandi. Segðu okkur aðeins frá því.

„Pallapartýið var þannig að boðið var upp á léttar og einfaldar veitingar sem við nokkur úr hópnum útbjuggum í sameiningu. Ein kom með ostasalat og kex, önnur döðlugott, guacamole, ein volga súkkulaðiköku og sumir komu með snakk eða sælgæti. Við vorum með bleika bala með ýmiss konar óáfengum drykkjum, bollu í stórri krús og svo kom fólk einnig með drykki með sér. Við settum snakk og popp í litla bréfpoka, vorum með alls konar bleikt nammi, sykurpúða til að grilla á eldinum og krökkunum fannst þetta mjög spennandi. Þau hlupu hér um, hoppuðu á trampólíni, grilluðu sér sykurpúða og síðan þegar leið á kvöldið fóru þau heim að leggja sig og eldri systkini sátu yfir þeim og foreldrarnir sátu áfram á pallinum fram á nótt,“ sagði Berglind og strax farin að hlakka til næstu bæjarhátíðar.

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"\"\"

\"\"