Íbúðaverð á Costa Blanca svæðinu á Spáni, sunnan Alicante er helmingi lægra en á Íslandi - og í sumum tilvikum aðeins þriðjungur af því sem þekkist norður á Fróni. Þetta staðfestir seinni þátturinn af Spánarheimsókn Sigmundar Ernis sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld.
Þessi íbúðakjör eru meginástæða þess að Íslendingar kaupa í æ ríkari mæli húseignir á Spáni, en veðrið og verðlag á nauðsynjavöru letur fólk heldur ekki til þess að eignast sitt annað heimili á sólarströndu. Í þættinum sést einnig hvað nýjar húseignir á Spáni eru orðnar bjartar og opnar, með stórum gluggum og svölum - og einnig hvað þjónustan í grennd er mikil og alhliða, ekki síst hvað tómstundir varðar, en einnig á sviði öryggis- og heilbrigðismála.
Í þættinum eru margvíslegar nýjar húseignir skoðaðar, allt frá 270 fermetra villu með öllu sem kostar á bilinu 50 til 55 milljónir króna, en einnig smærri einbýlishús, 150 fermetrar á um 30 milljónir króna, svo og glæsilegar íbúðir í fjölbýli, ýmist tveggja eða þriggja herbergja með tveimur til þremur salernum og tvennum svölum á um 24 til 28 milljónir króna, en þar er innifalin stór sameiginleg sundlaug, spa og sauna og líkamsræktarstöð.
Lánafyrirkomulag á Spáni er einfalt og skilvirkt, vextir til húsnæðiskaupa 2 til 3 prósent, án verðtryggingar, sem þekkist ekki í landinu, en aldurstakmark á þessum lánum er 75 ár.
Heim til Spánar, seinni þáttur, hefst klukkan 20:00 á Hringbraut í kvöld. Myndatöku annaðist Bjarni Svanur Friðsteinsson og María-Magdalena Ianchis, en stjórn upptöku var í höndum Elínar Sveinsdóttur.