Sjálfstæðisflokkurinn er kominn á fullt í byggingarframkvæmdir við Valhöll og leggst því á árar með borgarstjórnarmeirihlutanum í þéttingu byggðar. Flokkurinn hefur í mörg ár hamast gegn stefnu borgarstjórnarmeirihlutans varðandi þéttingu byggðar og gagnrýnt þá stefnu harkalega.
Nú bregður svo við að fulltrúar flokksins í minnihlutanum í Reykjavík hafa ekki vikið neikvæðu orði að hinni ógurlegu þéttingu byggðar í borginni um nokkurt skeið. Nánar til tekið ekki frá því að Dagur borgarstjóri og félagar heimiluðu flokknum að byggja myndarlega á lóðinni við Valhöll á Háaleitisbraut í Reykjavík. Ætlunin er að reisa um 60 íbúðir á lóðinni og talsvert atvinnurekstrarhúsnæði að auki.
Framkvæmdir eru hafnar. Flokkurinn er kominn á fullt í byggingarbrask og ekki er lengur minnst á þessa vondu stefnu borgarstjórnarmeirihlutans um þéttingu byggðar. Dagur vissi hvað hann var að gera þegar ríflegum byggingarheimildum var stungið upp í Sjálfstæðisflokkinn!
Þeir sem eiga leið um Bolholt og Skipholt geta séð að búið er að grafa risastóra holu á lóð flokksins. Stórvirkar vinnuvélar hafa verið þar að störfum undanfarnar vikur merktar BYGG, sem er Byggingarfélag Gunnars og Gylfa í Kópavogi. Þeir eru dyggir stuðningsmenn flokksins og hafa fengið einstaklega góða þjónustu hjá flokknum í Kópavogi – gengið þar að verðmætum byggingarlóðum vísum um árabil. Þeim hefur nú verið treyst fyrir jarðvegsframkvæmdum við Valhöll, hvað sem svo gerist í framhaldinu.
Ekki er enn vitað hvort flokkurinn seldi byggingarréttinn eða stendur sjálfur í framkvæmdunum fyrir eigin reikning. Ef svo er, þarf mikla peninga til framkvæmdanna og væri forvitnilegt að heyra hvernig verkið er þá fjármagnað. Ekki þyrfti þá að koma á óvart að annar hvor ríkisbankanna hafi verið látinn hlaupa undir bagga. Annað eins hefur gerst varðandi þjónustu bankanna við gömlu stjórnmálaflokkana, en á árum áður „frystu“ bankarnir skuldir þeirra og létu þær svo hverfa. Þetta gilti ekki bara um Sjálfstæðisflokkinn heldur einnig Framsókn, Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkinn.
Fróðir menn telja að Sjálfstæðisflokkurinn geti grætt heilan milljarð króna ef rétt verður að lóðabraskinu staðið. Eftir það verður hann ekki árennilegur í samkeppni við aðra flokka. Allir stjórnmálaflokkar eru alltaf blankir. Væntanlega mun þaðbreytast hjá Sjálfstæðisflokknum þegar gróðinn hefur verið innleystur.
- Ólafur Arnarson