Eftir rúman hálfan mánuð verður gengið til þingkosninga. Tíu flokkar bjóða fram og níu þeirra eiga möguleika á að ná inn þingmönnum. Kjósendur virðast hafa úr mörgu að velja. Er í raun svo? Eða er þetta kannski allt sama tóbakið?
Allt bendir til að eitt nýtt framboð nái mönnum á þing í komandi kosningum. Sósíalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar er á mikilli siglingu og fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að flokkurinn fái að minnsta kosti fjóra til fimm þingmenn.
Flokkurinn hafnar „málamiðlunum og falskri samræðu“ en ekki verður sagt að flokkurinn marki sér mikla sérstöðu með því að krefjast mannsæmandi kjara allra landsmanna, aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði, gjaldfrelsi í heilbrigðis- og menntakerfinu, styttingu vinnuvikunnar og mótun skattkerfis sem færi álögur af hinum tekjulægri yfir á hina efnameiri.
Hugmyndir sósíalista um aukna tekjuöflun með fjölgun skattþrepa, hækkun skattprósentna og því að skattleggja fjármagnstekjur eins og launatekjur byggjast á yfirgripsmikilli vanþekkingu á því hvernig heimurinn í raun og veru. Vissulega gæti hækkun fjármagnstekjuskatts skafið nokkrar krónur af venjulegu launafólki sem fjárfestir í litlum mæli í hlutabréfum og næði eflaust í skottið á tekulágum rithöfundum sem fá fjármagsntekjur vegna bókasafnsútlána. Stórir fjárfestar eru hins vegar ekki bundnir innan landamæra. Þeir geta flúið háa skatta og gera það, það hefur reynslan sýnt, svo mikið er víst. Þorri allra fjárfestinga er á vegum lífeyrissjóða og eignarhaldsfélaga og annarra lögaðila sem greiða engan fjármagnstekjuskatt. Það eru bara einstaklingar sem greiða fjármagnstekjuskatt.
Raunar má færa góð rök fyrir því að stefna Sósíalistaflokksins skipti í raun engu máli enda er hann dæmigerður lýðskrumsflokkur sem ætlar aldrei að taka sæti í ríkisstjórn. Til að setjast í ríkisstjórn þurfa flokkar að gera málamiðlanir og Sósíalistaflokkurinn hafnar málamiðlunum. Lýðskrumsflokkum hentar best að öskra sig hása yfir vonsku og óréttlæti allra annarra og sjálfs heimsins í fullkomnu ábyrgðarleysi stjórnarandstöðu.
Atkvæði greidd Sósíalistaflokknum eru því í raun ekkert annað en lóð á vogarskál stærsta stjórnmálaflokksins, Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn horfa með velþóknun á uppgang Sósíalistaflokks Gunnars Smára vegna þess að hvert atkvæði greitt honum styrkir stöðu Sjálfstæðisflokksins og eykur líkurnar á að hann verði í ríkisstjórn – rétt eins og hann hefur verið í 26 ár af síðustu 30.
- Ólafur Arnarson