Flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, Vinstri græn, hefur mælst í skoðanakönnunum að undanförnu með minnst 5,9 prósenta fylgi. Undanfarna mánuði hefur fylgi flokksins verið á svipuðum stað, gjarnan sex til sjö prósent.
Þetta er gríðarlega veikt og nánast óboðlegt að halda forsætisráðherra við völd þegar hann nýtur svo lítils stuðnings. Í kosningunum 2021 hlaut flokkur Katrínar um 11 prósent en 17 prósent í kosningunum 2017 þegar forsætisráðherraferill hennar hófst. Síðan hefur fylgið hrunið af Vinstri grænum
Mjög veikt er að forsætisráðherra sitji við völd rúinn trausti og stuðningi eins og blasir nú við. Þessi staða gæti aldrei talist boðleg. Síst af öllu á tímum eins og nú þegar vinnumarkaðurinn nötrar, ríkissjóður er rekinn með bullandi halla, þrátt fyrir hagvöxt, engin samstaða er um stefnu gagnvart flóttafólki, heibrigðiskerfið við þolmörk að ekki sé talað um óðaverðbólgu og stöðugar vaxtahækkanir. Landið virðist vera stjórnlaust.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til forsætisráðherra síðustu áratugina hefur fylgi flokksins ávallt verið frá 28 prósentum og upp í rúm 40 prósent. Þegar Framsókn hefur átt forsætisráðherra hefur fylgi hans oft verið í kringum fjórðung og þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra árið 2009 þá hlaut Samfylkingin 30 prósenta fylgi í kosningunum.
Nú þykir boðlegt að forsætisráðherra sitji við völd þó að flokkur hans mælist með í kringum sex prósent um þessar mundir.
Þessi óboðlega staða veikir ríkisstjórnina að óþörfu. Katrín Jakobsdóttir verður að víkja enda er flokkur hennar að þurrkast út.
Fáum dylst að þetta ástand getur ekki varað lengi.
- Ólafur Arnarson.