Flokkur fólksins var senuþjófur í upphafi kosningabaráttunar og mældist í skoðanakönnunum með yfir 11% fylgi og var talinn mundu koma sjö fulltrúum á Alþingi.
Eftir því sem tíminn hefur liðið virðist áætlað fylgi þeirra vera á stöðugri niðurleið. Fyrst sýndu kannanir 11% fylgi þeirra, síðan 9%, þá 8% og í síðustu skoðanakönnunum mælist flokkurinn einungis með 6%. Svo virðist sem Flokkur fólksins sé á stöðugri niðurleið og muni ekki koma neinum fulltrúa á Alþingi.
Nokkrar gildar ástæður eru fyrir niðursveiflu í fylgi Flokks fólksins:
- Miðflokkur Sigmundar Davíðs tekur frá þeim óánægjufylgi og stuðning öfgafólks.
- Frambjóðendur sem hafa komið fram á vegum flokksins eru alls ekki fallnir til þess að laða kjósendur að flokknum – að Ingu Sædal undanskilinni. Hún er öflugur stjórnmálamaður.
- Uppákoma sem varð í Menntaskólanum á Akureyri, og farið hefur um netheima og marga fjölmiðla, hefur að sönnu ekki hjálpað flokknum. Þar hagaði Pétur Einarsson, frambjóðandi flokksins, sér mjög einkennilega svo ekki sé meira sagt.
- Þá eru komnar upp deilur varðandi Magnús Þór Hafsteinsson, sem leiðir lista flokksins í NV-kjördæmi. Hann var áður þingmaður Frjálslynda flokksins og þykir ekki vera líklegur til að sækja traust eða afla fylgis.
- Hinn aldni klerkur, Halldór Gunnarsson í Holti, leiðir listann í NAU-kjördæmi en hann hefur víða boðið sig fram og jafnan verið í liði hinna sigruðu. Tilvist hans í forystu flokksins er ekki talin hjálpa.
Flokkur fólksins á ekki mikla möguleika í komandi kosningum.
Rtá.