Stórar fjárhæðir fást nú fyrir mjög góða unga knattspyrnumenn sem fara utan í atvinnumennsku frá Íslenskum liðum. Miklar sögur hafa gengið um tekjur sem ÍA, Íþróttabandalag Akraness, er að fá fyrir framhaldssölu á ungum leikmanni, Hákoni Haraldssyni, sem ÍA seldi til Danmerkur en þaðan er hann að færast til Lille í Frakklandi fyrir fúlgur fjár. Þannig er um samninga búið að uppeldisfélagið semur um hlutdeild í áframsöluverði sem kemur sér vel þegar svona tekst til. Yngri bróðir Hákonar, sem er einungis 17 ára, fer einnig á samning til Lille og verður þá í sama félagi og eldri bróðirinn.
ÍA hefur einnig selt fleiri unga leikmenn á þessu ári. Engar staðfestar fjárhæðir fást uppgefnar vegna þessara tekna sem falla Akranesi í skaut. Talsverðar ýkjusögur eru á sveimi en gera má ráð fyrir að tekjur ÍA af þessu verði ekki undir 300 milljónum króna á þessu ári. Gætu jafnvel orðið meiri. En að því gefnu að þær verði 300 milljónir má ljóst vera að Akurnesingar verða í mjög sterkri stöðu á knattspyrnusviðinu á næstunni. Karlalið félagsins leikur nú í næst efstu deild og er í harðri baráttu um að komast upp í efstu deild en úr því fæst skorið á næstu vikum og endanlega í lok september.
Takist þeim að komast upp í efstu deild nú í haust munu þeir leika þar á næsta ári og þá má ætla að þeir hafi fjárhagslega burði til að ná til sín dýrum og öflugum leikmönnum, bæði íslenskum en ekki síður frá útlöndum. Slíkt kostar mikið en ÍA ætti að hafa fjárhagslegan styrk til að keppa við stórliðin sem eru fyrir í efstu deild. Eins og staðan í þeirri deild er núna raða Víkingur, Valur og Breiðablik sér í efstu sætin og eru í nokkrum sérflokki þar, bæði hvað varðar stöðu í deildinni og gæði enda hafa þessi lið á að skipa flestum bestu leikmönnum deildarinnar um þessar mundir.
Í knattspyrnu karla skiptir miklu máli að eiga kost á að taka þátt í Evrópukeppni. Það er liðunum ávallt keppikefli og gefur af sér mikilvægar tekjur. Að þessu sinni tóku Víkingar þátt og féllu úr keppni í fyrstu umferð. Það hefur gefið þeim tekjur upp á 60 milljónir króna. Engu að síður voru það mikil vonbrigði að falla strax úr keppni. Breiðablik var heppnara og er komið í aðra umferð. Talið er að tekjur félagsins muni þá nema 150 milljónum króna hið minnsta, jafnvel 200 ef vel tekst til í næstu leikjum. KA er þriðja félagið sem tekur þátt í Evrópukeppni að þessu sinni og hefur staðið sig virkilega vel. Tekjur þeirra gætu numið rúmum 100 milljónum króna og það munar um minna.
Peningar ráða miklu um framgang einstakra félaga í knattspyrnu karla. Lengi hefur það verið þannig en fer nú vaxandi hér á landi sem annars staðar.
- Ólafur Arnarson