Fleiri karlar í ófrjósemi en konur

Fleiri karlar en konur fóru í ófrjósemisaðgerð síðasta áratuginn. Á árunum 1981 til 2014 voru gerðar tæplega 21 þúsund ófrjósemisaðgerðir. Níu ólögráða einstaklingar fóru í ófrjósemisaðgerð á árunum 1998 til 2014.
 

Þessar upplýsingar koma fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Páls Vals Björnssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, og lagt var fram á Alþingi í gær, en RÚV greindi frá málinu í morgun.

Þar segir að á árunum 1981 til 2014 voru ófrjósemisaðgerðir á Íslandi á bilinu 461 til 775 á ári. Flestar aðgerðir voru framkvæmdar á árunum 1996 til 2000, yfir 700 talsins hvert ár. Langalgengastu forsendur fyrir að ófrjósemisaðgerð er heimiluð eru ef einstaklingur, sem orðinn er 25 ára, óskar eindregið og að vel íhuguðu máli eftir aðgerð og engar læknisfræðilegar ástæður mæla gegn því. Frá árinu 1981 til ársins 2004 eru konur í miklum meirihluta þeirra sem gangast undir ófrjósemisaðgerð en frá aldamótum fer körlum fjölgandi. Árið 2005 eru karlar fyrst í meirihluta þeirra sem undirgangast slíkar aðgerðir og hafa verið í meirihluta síðan. Alls fóru 463 karlar í ófrjósemisaðgerð hér á landi í fyrra og 121 kona. Almennt er talið að aðgerðin sé einfaldari og hættuminni hjá körlum en konum. Flestir karlar gangast undir ófrjósemisaðgerð utan sjúkrahúss og án innlagnar.

Á árunum 1998 til 2014 voru framkvæmdar níu ófrjósemisaðgerðir á einstaklingum 15 til 18 ára þar sem umsóknin var undirrituð af lögráðamanni. Ekki er spurt um fötlun á umsóknareyðublöðum fyrir ófrjósemisaðgerðir, segir í samantekt RÚV um svar ráðherrans.