Fleira gratt fólk á rúv

Það er fráleit nálgun hjá Þorsteini Sæmundssyni þingmanni að telja órofa samband milli þess að fréttastofa Rúv verði að umbylta eigin fréttamati og mælinga sem sýna að forskot Ríkisútvarpsins í kvöldsjónvarpsfréttum á Stöð 2 er horfið líkt og Kjarninn hefur tekið saman.

Ummæli þingmannsins eru klassískt pungspark úr röðum valdsækinna stjórnmálaflokka sem hafa ætíð viljað hafa meiri ítök innan almannaútvarpsins en sjálfstæðir fréttamenn þjóðarinnar hafa leyft þeim.

Skyldi ekki fara um þá?

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir á fésbókarsíðu sinni: „Skyldi ekki fara um stjórnendur RUV þegar þeir lesa þessar tölur. Þarna er reyndar ekki öll sagan sögð því morgun og síðdegisþættir Bylgjunnar rústa RUV. Menn ættu kannski að velta fyrir sér ritstjórnarstefnunni og fréttamatinu.“

Tölurnar sem Þorsteinn vísar í eru samkvæmt úttekt Kjarnans á áhorfstölum Gallup að fyrir sjö árum horfðu rúmlega fimmtungi fleiri á kvöldfréttir RÚV en Stöðvar 2. Sá munur er nú úr sögunni. Alls horfa nú milli 21 og 22% landsmanna á kvöldfréttatímana og er af sem áður var þegar hálf þjóðin sat límd yfir kvöldfréttum Rúv. Þá var ekkert Internet,  miklu minni upplýsing. Þá hafði ekki hálf þjóðin gengið í háskóla eins og nú, þá höfðu fæstir tækifæri til að afla sér gildra upplýsinga með sjálfstæðum hætti. Þá þótti stórfrétt ef einhver fór til útlanda.

Nóg að hugsa um

Sannarlega er niðurstaða fjölmiðlakönnunar Gallup umhugsunarefni fyrir Rúv. Ályktun Þorsteins að nú verði almannaútvarpið að endurskoða fréttamat sitt er eigi að síður varhugaverð. Það er nefnilega ekki gildur mælikvarði á þýðingu upplýsinga og mikilvægi fyrir samfélag að sem flestir leggi sig eftir þeim. Það sjáum við hvern einasta dag þegar mest lesnu fréttir vefmiðla landsins eru skoðaðar. Kynlíf fræga fólksins, gífuryrði og upphrópanir, tilfinningaklám af ýmsum toga eru dæmi um „clickbates“ eða fréttir sem tryggja mikla aðsókn. Þeir sem verða sérfræðingar í að skrifa svoleiðis fréttir hafa verið kallaðir „smelludólgar“ og er þá vísað til þess að almenningur smelli með músinni á afurðir þeirra á vefnum en verði oft fyrir vonbrigðum. Oft er ekki samhengi milli fyrirsagnar og innihalds og hverfa sumir frá þeim hildarleik með óbragð í munni þangað til þeir láta plata sig aftur. Þetta getur orðið að ákveðinni íþrótt en Ríkisútvarpið má aldrei enda þar.

Holræsakynlíf

Er það ábyrgðarhluti fjölmiðlafólks að skrifa þær fréttir sem markverðast er samfélagslega að segja hverju sinni? Eða er eðlilegt að markaðurinn stýri för, að eftirspurnin sé sterkari en sú fjölmiðlaábyrgð sem snýr að framboði? Tökum sem dæmi frétt af annars vegar kynlífi frægs Hollywood leikara og berum saman við frétt af tímamótum í umhverfisvænleika holræsakerfis Reykjavíkurborgar.  Hvort er nú líklegra að landsmenn myndu hópast til að lesa um holræsi höfuðborgarinnar eða ástarlíf Justin Biebers sem virðist hafa slegið í gegn á DV um daginn? Við vitum svarið. Þegar grannt er skoðað eru holræsi hugans betri sölu- og neysluvara en þau sem liggja heiðarlega neðanjarðar og sjá um að skila úrgangi mannskepnunnar til sjávar. Við þurfum Ríkisútvarpið til að veita stjórnmála- og efnahagslífi aðhald, þar liggja holræsi líkt og á öðrum sviðum þar sem mesta valdið er samankomið. Sumir miðlar munu alltaf leitast við að skrifa um holræsi hugans, fréttir sem stuða og sjokkera eða svala óæðri kenndum. Aðrir fjölmiðlar nýta dagskrárvaldið til að sinna sönnum almannahagsmunum og þar ber Ríkisútvarpinu að tróna á toppnum. Hvað sem líður áhorfstölum.

Að hafa tíma til að hugsa

Sátt hefur skapast um að mannafli Ríkisútvarpsins (sem er margfaldur miðað við einkaframtakið) fái meira rými og betri tíma til að spyrja þeirra spurninga sem stofnunin telur mikilvægastar hverju sinni. Að ekki sé minnst á að starfsmenn Rúv eiga ekki allt sitt undir að afurðir þeirra selji, þeir fá launin sín greidd úr ríkissjóði og halda vinnunni hvort sem afurðir þeirra vekja mikla athygli eða litla. Rás 1 verður aldrei einkavædd vegna þess einmitt að gæði þeirrar stöðvar verða hvorki mæld í hlustun né almannavinsældum. Þetta frelsi frá bissnesshagsmunum verður starfsfólk Rúv að nýta með auðmýkt og ábyrgð. Ef þær spurningar sem Ríkisútvarpið setur á dagskrá vekja minni áhuga þjóðarinnar en áður, segir það ekki að Rúv verði að elta uppi fréttamat léttmiðlanna til að auka áhorf og hlustun. Heldur segir minnkandi áhorf og hlustun sögu um þróun samfélags, sögu um tæknibyltingu, sögu um neyslubreytingu.

Línuleg dagskrá lætur undan

Fjölmiðlamæling Gallup gefur til kynna að æ sjaldgæfara sé meðal íslensku þjóðarinnar að almenningur láti skammta sér tímalínulegar upplýsingar á ákveðnum tíma. Sú menningarlega breyting er staðreynd bæði hér sem annars staðar. Æ færri borgarar láta fjölmiðla segja sér hvenær upplýsingar skuli bornar á borð. Fyrir það geldur línuleg fréttadagskrá og við því þarf Rúv að bregðast.

Ekki með því að afnema kvöldfréttatímana í ljósi breytinga. Heldur með því að hugsa fréttaþjónustu upp á nýtt án þess að breyta fréttamati almannaútvarpsins. Þar ætti vefurinn að vera öflugasta tækið.  Það er algjörlega óviðunandi með alla þessa framleiðslu og allan þennan mannskap að vefur Rúv sé aðeins sjötti mest sótti vefur landsins samkvæmt samræmdri vefmælingu. Það ættu forráðamenn almannaútvarpsins að hugsa um.

Örlítið meiri greddu, Magnús Geir?

Að lokum má velta því upp hvort kannski þurfi að ráða fleira „gratt“ fólk á Rúv. Graðir eru þeir fréttamenn kallaðir í blaða- og fréttamennsku sem leggja mikið undir daglega til að geta skúbbað hörðum málum. Við höfum dæmi um graða fréttamenn hjá Stöð 2 sem oft virðast hafa lagt mikið á sig til að skila metnaðarfullum afurðum. Auðvitað eru þeir líka á Rúv t.d. í Kastljósinu en kannski fær Stöð 2 verðlaun frá áhorfendum fyrir gredduna sína í nýjum mælingum Gallup.

Þessu má Ríkisútvarpið velta fyrir sér. Engin ástæða er til að breyta fréttamatinu per se, en framsetning, tími, gredda og sjálfsgagnrýni eru hugtök sem öllu blaða- og fréttafólki er hollt að huga að. Og ekki síst þeim sem búa við betra launa- og atvinnuöryggi en þekkist á hinum blóðuga einkamarkaði fjölmiðlanna þessa dagana.

(Fjölmiðlarýni: Björn Þorláksson)