Í fyrrasumar urðu mikil vatnsflóð á Siglufirði eftir gríðarlega úrkomu. Vart hafði veðrinu slotað uns forsætisráðherra þjóðarinnar var mættur til heimamanna ásamt fríðu föruneyti og lofaði fé til að bregðast við hamförunum. Í frétt Fréttablaðsins þar sem mynd Völundar Jónssonar að ofan birtist af forsætisráðherra á Sigló var haft eftir Sigmundi Davíð að hann vildi strax láta skoða hvort ríkissjóður ætti að koma að innviðauppbyggingu í Siglufirði eftir flóðin.
29. desember sl. gekk mikið hvassviðri yfir Austurland og olli miklum skemmdum. Daginn eftir mátti lesa þessa frétt á visir.is: \"Forsætisráðherra hefur óskað eftir að fulltrúar æðstu embættismanna, almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, Viðlagatryggingar og fleiri aðila, meti, hvernig bregðast á við því mikla tjóni sem varð í óveðrinu á Austfjörðum síðasta sólarhringinn.\"
Miklu fleiri dæmi mætti nefna um snör viðbrögð stjórnvalda þegar eitthvað bjátar á. Þessi dæmi eru valin af handahófi og vegna þess aðallega að atburðirnir eru mörgum enn í fersku minni.
Náttúruhamfarir af veðravöldum eru óvenjulegar. Samt eru þær hluti af lífi Íslendinga og kalla jafnan á samstöðu. Maður hélt líka að fréttin af þrælahaldinu í Vík í Mýrdal myndir kalla á aðgerðir og samstöðu. Konur höfðu þá verið sviptar frelsi sínu, þær þræluðu í kjallara þar sem lofthæð var 1.60.
En Rúv flutti okkur þessa frétt í gær: \"Konurnar tvær sem sterkur grunur leikur á að hafi verið vinnuþrælar í Vík í Mýrdal, eru farnar af landi brott. Réttargæslumanni þeirra, Kristrúnu Elsu Harðardóttur er misboðið, enda hafi nær ekkert verið gert fyrir þær eftir að lögreglan sótti þær, annað en að koma þeim fyrir í Kvennaathvarfinu með 5.200 krónur á viku. Konurnar fengu ekki atvinnuleyfi og voru því settar í enn verri stöðu en þær voru í á meðan á mansalinu stóð. Óvíst er hvaða áhrif þetta hefur á málaferlin gegn manninum sem talinn er gerandinn í málinu. Réttargæslumaður kvennanna segir baráttu gegn mansali hérlendis vera orðin tóm ef vinnubrögðin verði ekki bætt hið snarasta.\"
Hvaða ályktun er hægt að draga af þessu? Þegar náttúruhamfarir skella á Íslendingum þykir sjálfsagt að styðja við þolendur. En þegar ánauð útlendinga er annars vegar verða kannski bara 5.200 krónur á viku að duga. Þá er enginn viðbragðshópur skipaður, engin stjórnarfarsleg athygli eftir að loftið tæmist úr fjölmiðlablöðrunum, engir peningar, kannski enginn áhugi á að sinna fórnarlömbunum? Ólöf Nordal fékk tölvupóst vegna útlensku kvennanna. Það voru haldnir fundir, en enginn gerði neitt.
Krefjumst við alls að utan en leggjum á sama tíma lítið sem ekkert á móti? Þótt staðreyndin sé sú að mestallan uppgang okkar litlu eyþjóðar megum við þakka því sem á upptök sín utan landsteinanna?
Mun þjóðarskömm leysa þjóðarstoltið af hólmi ef við spyrnum ekki við fótum? Viljum við ekki hugsa um neitt nema okkur sjálf?
Og kann að vera að viðbrögð eða viðbragðaleysi megi að nokkru leyti skýra með kynjakerfinu, að konur fái síður framgang þegar úrbóta er þörf en þegar karlar tala við karla?
Björn Þorláksson