Ár mikillar kyrrstöðu er liðið í stjórnmálum hér á landi. Núverandi ríkisstjórn var myndum með kyrrstöðu að leiðarljósi. Þar við situr enn um sinn eða þar til stjórnin fellur sem gæti orðið á árinu 2019.
Ríkisstjórnin hefur fátt á afrekaskrá sinni eftir fyrsta árið annað en lækkun veiðigjalda um fjóra milljarða. Það var hægt að koma til móts við kvótaþega en ekki bótaþega. Öryrkjar telja sig svikna enda er ekki staðið við kosningaloforð um að bæta kjör þeirra verst settu í samfélaginu. Nema ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sósíalistaleiðtoga, líti á sægreifa sem þá verst settu!
Ríkisstjórnin mundi þó eftir öðrum hópi sem þurfti hjálpar við. Ríkisframlög til stjórnmálaflokka eru komin í 800 milljónir á ári og hafa aukist um 175% frá árinu 2017. Þvílík ósvífni! Hvers vegna fjalla fjölmiðlar ekki meira um þessa sjálftöku? Eða þá ákvörðun Alþingis að fjölga aðstoðarmönnum þingflokka um 17.
Ætli finnist þá ekki loksins vinna fyrir fallna þingmenn sem engin eftirspurn er eftir, eins og Ólínu Þorvarðardóttur, Illuga Gunnarsson og Þór Saarí?
Ekkert hefur verið gert til að minnka styrkjakerfi landbúnaðar. Stjórnin stendur vörð um sérhagsmuni bænda og sægreifa á kostnað neytenda og skattgreiðenda.
Ekkert er gert til að koma gjaldmiðlamálum þjóðarinnar í sómasamlegt horf. Menn ætla að notast við veikasta og minnsta myntkerfi í heimi. Íslenska krónan blaktir eins og lauf í vindi. Ekki er hægt að treysta á hana. Krónan var einn helsti orsakavaldur hrunsins árið 2008. Ætlar ríkisstjórnin bara bíða eftir næsta hruni með þessa ótraustu dvergmynt?
Vegakerfið á Íslandi er að hruni komið. Fyrrverandi samgönguráðherra setti af stað djarfa áætlun til að ráðast í marktækar framkvæmdir og endurbætur. Núverandi samgönguráðherra vék strax frá þeirri áætlun og viðheldur áframhaldandi kyrrstöðu í anda ríkisstjórnarinnar. Áfram eru því 36 einbreiðar brýr á hringveginum með hörmulegum afleiðingum. Slysin tala sínu máli og undirstrika sleifarlagið.
Ekkert er gert til að draga úr ríkisumsvifum. Báknið þenst út á vakt Sjálfstæðisflokksins sem hefur lengi unnið gegn auknum ríkisumsvifum. En ekki lengur. Áður var það BÁKNIÐ BURT en nú gæti það verið LÁTIÐ BÁKNIÐ OKKAR KJURRT!
Núverandi ríkisstjórn var mynduð um ráðherrastóla. Kosningaloforð, stefnumál og grundvallarsjónarmið flokkanna þriggja víkja fyrir samstöðu um aðgerðarleysi og pólitíska moðsuðu.
Ekki þarf að koma á óvart að farið sé að tala um “framsóknarflokkana þrjá” og jafnvel spurt hvort ekki sé ráð að sameina þá alla. Því ekki? Þeir eru að verða eins.
Þetta flatneskjulega ástand er farið að valda ólgu meðal einstakra flokksmanna sem vilja halda í einhverjar hugsjónir. Þannig hitti Illugi Jökulsson naglann á höfuðið þegar hann birti nýlega blaðagrein og spurði hvort ekki væri tilvalið að Katrín Jakobsdóttir tæki við formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Illugi er gegnheill sósíalisti. Honum mislíkar hvernig Vinstri græn eru tilbúin að fórna allri stefnu og svíkja stuðningsmenn sína fyrir mjúka valdastóla, fína ráðherrabíla og annað pólitískt snobb sem grasrót flokksins fyrirlítur.
Þessi ríkisstjórn verður ekki langlíf. Árið 2019 mun færa okkur stjórnarskipti. Vonandi læra aðrir stjórnmálamenn af mistökum núverandi ríkisstjórnar því á endanum fer alltaf illa fyrir þeim sem svíkja.
Gleðilegt ár!